Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009

Fimmtudaginn 09. febrúar 2006, kl. 17:42:27 (4662)


132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[17:42]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þá vitum við það að hv. þingmaður sér ekki eftir að hafa greitt byggðunum fyrir vestan þungt högg með samþykkt sinni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að öðru og það varðar þau ummæli hans að frumkvæði heimamanna skipti mestu máli. Ég vil vekja athygli á því, frú forseti, að ef einhver ætlar að stofna útgerð, t.d. á stað eins og Bíldudal eða Tálknafirði, sem hv. þingmaður greiddi þungt högg hér vorið 2004 með því að kvótasetja trillurnar sem voru í sóknardagakerfinu, þá þarf viðkomandi að reiða fram 150 milljónir og tekjurnar af þeirri útgerð eru 13 milljónir á ári. Er það þá ekki bara bull að segja að frumkvæði heimamanna skipti máli? Er ekki einfaldlega búið að búa til þvílíkt skrímsli af hálfu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins að fólkið getur ekki náð vopnum sínum á ný í þessum byggðum?

Mér finnst ekki sanngjarnt að segja að þetta velti eitthvað á frumkvæði heimamanna.