Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009

Fimmtudaginn 09. febrúar 2006, kl. 17:47:13 (4668)


132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[17:47]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var gríðarlega áhugavert að heyra foringja framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi lýsa því yfir að hann sæi alls ekki eftir því að trillurnar hefðu verið settar í kvóta á sínum tíma. Jafnvel þó komið hafi fram í Morgunblaðinu 19. október sl. að Vestfirðir hafi tapað 1840 þorskígildistonnum við þessa aðgerð. Og öll héruð í Norðvesturkjördæmi hafi tapað mjög stórum þorskkvótum frá því að fiskveiðiárið 2004–2005 hófst. Þetta er í Morgunblaðinu 19. október 2005. Ég hvet þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins til að fletta þessu upp í gagnasafninu og lesa þetta.

Hins vegar langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður og foringi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi hafi ekki einhver ráð á takteinum varðandi það að stöðva þann fólksflótta sem nú er frá Vestfjörðum og hefur verið undanfarin ár? Nýjustu tölur frá Hagstofunni sýna að brottfluttir umfram aðflutta á Vestfjörðum eru alls 185 manns, bara á síðasta ári. Hvernig á að fara að því að stöðva þetta?