132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[11:43]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á því að viðkomandi mál hafi dottið úr huga mínum vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram.

En ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Af því þessi virkjun var nú m.a. hér til umræðu þá var því haldið fram að það væri nú dálítið annað að tala um þá virkjun eða Kárahnjúkavirkjun, vegna þess að Kárahnjúkavirkjun hefði verið hugsuð fyrir einn framleiðanda á tilteknum málmi sem er ál.

Nú halda menn því oft fram að þegar sá málmur er framleiddur sé aðeins verið að framleiða eina vörutegund. En það vill nú svo til að t.d. í álverinu í Straumsvík eru framleiddar 200 vörutegundir. Þar er um hátækniiðnað að ræða. En það var nú einmitt við þær aðstæður sem Búrfellsvirkjun var reist. Hún var reist til að útvega rafmagn fyrir eitt tiltekið fyrirtæki í Straumsvík sem hefur starfað síðan. Það vill svo til að þetta tiltekna fyrirtæki hefur keypt rafmagn af þessari virkjun í öll þessi ár og nú er hún nær fullafskrifuð og allar tekjur sem verða af henni í framtíðinni eru hreinar tekjur.

Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að það sama mun verða með Kárahnjúkavirkjun. Ég endurtek að ég held að það sé afskaplega lítil áhætta í sambandi við þá virkjun miðað við það útlit sem er í heiminum í dag í sambandi við orkumál. Ég tel að það sé ekki sambærilegt við margar aðrar atvinnugreinar sem menn eru að fara út í. Það eru engar líkur á öðru en að á næstu áratugum verði skortur á orku í heiminum.

En eins og hv. þingmönnum er kunnugt um þá var fyrirtækið Landsvirkjun stofnað með lögum nr. 59/1965. Stofnendur fyrirtækisins voru íslenska ríkið og Reykjavíkurborg og skyldi hvor aðili um sig eiga helmingshlut. Meðal þess sem ríkið lagði til sem stofnframlag samkvæmt sameignarsamningi voru vatnsréttindi vegna 210 megavatta virkjunar í Þjórsá við Búrfell ásamt landi sem til þurfti vegna virkjunarinnar.

Forsvarsmenn ríkisins voru í þeirri góðu trú að ríkið væri eigandi þessara réttinda sem lögð voru fram af þess hálfu til sameignarfélagsins enda byggðust þau á afsali frá fyrirtækinu Titan h/f frá árinu 1952. Nýlegir úrskurðir óbyggðanefndar um Gnúpverjaafrétt 21. mars 2002 og Landmannaafrétt 10. desember 2004 setja þarna strik í reikninginn sem hér er verið að taka á. Samkvæmt þeim hafði Titan h/f og þeir aðilar sem félagið leiddi rétt sinn frá ekki eignarrétt yfir landinu sem Búrfellsvirkjun er reist á né þau vatnsréttindi sem talið var. Eignartilkalli Landsvirkjunar var þannig hafnað í þessum úrskurðum og telst umrætt svæði þjóðlenda í skilningi laga og fer ríkið þar af leiðandi með eignarréttinn.

Í athugasemdum með frumvarpinu er ítarlega rakið hverjar voru forsendur óbyggðanefndar fyrir þessari niðurstöðu. Þar sem eignarhlutur ríkisins í Landsvirkjun hefur ásamt öðru miðast við framsal vatnsréttinda og lands á þessu svæði til fyrirtækisins er það niðurstaða eigenda fyrirtækisins að nauðsyn beri til að flytja frumvarp þetta og leita með því eftir heimild Alþingis til að afsala til Landsvirkjunar eignarrétti að þessum réttindum er varða Búrfellsvirkjun. Með því móti er tryggt að fyrirtækið verði að gengnum úrskurðum óbyggðanefndar eins sett og til var stofnað með nefndum sameignarsamningi á sínum tíma að því marki sem hann náði til ráðstöfunar þess lands og vatnsréttinda á nefndu svæði, sem ríkið taldi sig eiganda að við gerð sameignarsamningsins frá 1965.

Það svæði sem hér um ræðir er um 25 ferkílómetrar beggja vegna við Þjórsá þar sem eru mannvirki og athafnasvæði Landsvirkjunar vegna Búrfellsvirkjunar. Einnig gerir frumvarpið ráð fyrir að landinu fylgi vatnsréttindi í Þjórsá að því marki sem þarf til, allt að 310 megavatta afl. Þess ber að geta að málshöfðunarfrestur vegna úrskurðar óbyggðanefndar um Landmannaafrétt rann út í september 2005 án þess að mál væri höfðað. Mál til ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar um Gnúpverjaafrétt var þingfest 20. nóvember 2002 en hefur legið í láginni síðan. Ef frumvarpið verður að lögum verður eftir atvikum gerður fyrirvari í afsali til Landsvirkjunar um niðurstöðu þessa dómsmáls.

Frú forseti. Ég tel ekki ástæðu til að reifa þetta frumvarp frekar. Ég tel að það sé alveg skýrt hvað hér er á ferðinni og með því er ríkið að standa við það sem það gerði í góðri trú árið 1965 og að sjálfsögðu ber ríkinu að standa við slíka samninga þegar nýjar aðstæður koma upp og ríkið hefur alla möguleika til þess, með því að leggja til við Alþingi að samþykkja að þessi réttindi verði færð til Landsvirkjunar með þeim hætti sem hér er lagt til og ekki þurfi að koma til málaferla í þessu sambandi. Ég vænti þess að hv. þingmenn geti fallist á það þó að þessi samningur hafi verið gerður nokkuð löngu áður en nokkur þeirra sem eiga sæti á Alþingi nú komu á þing. Þessi samningur var ekki gerður á sínum tíma á ábyrgð nokkurs þess þingmanns sem hér situr en hann var gerður af hálfu ríkisins og með þessu frumvarpi er verið að leitast við að við hann verði staðið þannig að ekki þurfi að koma til málaferla af þeim sökum.

Ég vil svo að lokinni þessari umræðu biðja um að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.