132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[12:23]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algerlega sammála því sem hæstv. forsætisráðherra var að segja, og tel mjög miður að mönnum hafi ekki tekist að ljúka þessu máli. Við vitum hvernig það gekk fyrir sig og ég tel ástæðu til að menn reyni að gera betur og klára þetta með einhverjum hætti þó að ég óttist að það muni kosta stærri upphæðir en annars hefði gerst. Það kann að hafa verið ástæðan fyrir því að vinstri grænir lögðust gegn málinu að þeir hafi talið að hægt væri að fá hærra verð fyrir þessar eignir.

Annað var þó gefið upp í umræðunum. Það var gefið upp að þeir væru að reyna að koma í veg fyrir að Landsvirkjun yrði seld sem í sjálfu sér er mjög undarlegt vegna þess að ég get ekki séð að ef einhverjum dytti í hug að selja Landsvirkjun væri í sjálfu sér neitt erfiðara að selja hana þó að Reykjavíkurborg og Akureyri ættu eitthvað í henni. Það er bara handavinna í sjálfu sér að gera þetta fyrirtæki að hlutafélagi og selja það ef menn vilja það. Það vil ég ekki.

Það var annað sem mig langaði til að fá svör við hjá hæstv. forsætisráðherra, viðbrögð við þeim vangaveltum mínum sem ég hef áður viðrað hér að ástæða sé til að skoða það, þegar fyrir liggur hver eignamyndun Akureyringa og Reykvíkinga verður vegna Landsvirkjunar, hvort með einhverjum hætti eigi ekki að jafna það út gagnvart öðrum sveitarfélögum með eignarhaldi í Rarik eða öðrum orkufyrirtækjum. Þannig væri hægt að jafna á klyfjunum. Þessi samningur við Akureyringa og Reykvíkinga færir þeim gríðarleg verðmæti sem eru að mínu viti fyrst og fremst komin til vegna þess að þetta fyrirtæki hefur nýtt sameiginlegar orkulindir okkar og það er óeðlilegt annað en að það sé skoðað þegar það liggur fyrir hver (Forseti hringir.) sá auður er.