132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[12:25]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Landsvirkjun má áætla að eigendur Landsvirkjunar, ríki, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, hafi í gegnum tíðina lagt fram rúman milljarð á núvirði í fjármagni inn í þetta fyrirtæki. Það var metið, og ef ég man rétt á 56 milljarða, núna um áramótin og það var sá samningur sem fulltrúar Reykjavíkurborgar höfnuðu.

Þetta eru hins vegar staðreyndir. Það liggur fyrir að Reykjavíkurborg á 45% í Landsvirkjun og Akureyrarbær á 5%. Þannig var gengið frá þessum samningum í upphafi og það ber að virða eignarréttinn í þessu sem öðru.

Varðandi önnur sveitarfélög í landinu er náttúrlega ljóst að ríkisvaldið þarf að koma til móts við þau þeirra sem hafa minni tekjur. Það hefur ríkið gert í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í gegnum tíðina. Í eitt skipti hefur þó verið brugðið út af því með því að kaupa eitt tiltekið orkufyrirtæki á Vestfjörðum af eigendum þar. Það var reynt að gera það á verði sem mætti telja bæði sanngjarnt og eðlilegt gagnvart þessum sveitarfélögum og varð til að létta nokkuð á þeim. Ég get ekki farið frekar út í það en ég sé ekki alveg hvernig á að koma til móts við önnur sveitarfélög í þessu sambandi á þessu stigi. Að mínu mati er ljóst að við þurfum að halda áfram að efla Jöfnunarsjóð sveitarfélaga því að mörg sveitarfélög í landinu geta því miður ekki staðið undir öllum þeim skuldbindingum sem þau standa frammi fyrir í framtíðinni.