132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[12:57]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hirða um þau lágkúrulegu orðaskipti sem áttu sér stað milli tveggja síðustu ræðumanna. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar um það mál sem hér er til umræðu, þá dæmalausu ræðu. Ég verð að viðurkenna það að eftir að hafa hlustað á ræðuna stend ég eiginlega í þeim sporum að mér finnst eins og hv. þingmaður skilji ekki málið.

Hér er um það að ræða að flutt er lagafrumvarp til að staðfesta gjörning sem fór fram árið 1965 og hefur komið í ljós að þurfi að setja inn í lög það ákvæði sem hér er í frumvarpinu til að skýra þann gjörning. Ég hélt að fortíðarmaður eins og hv. þm. Jón Bjarnason væri sammála því að það væri rétt að gera slíkt ef kæmi í ljós að það þyrfti. En ég vildi gjarnan heyra hjá hv. þingmanni hvort það er réttur skilningur hjá mér að hann skilji ekki þetta mál.