Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 18:08:55 (4944)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum.

68. mál
[18:08]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að tekin skuli fyrir í sölum Alþingis Íslendinga þessi þingsályktunartillaga um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum sem, eins og hv. framsögumaður málsins gat um, var fyrst lögð fram á 129. löggjafarþingi af mér og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Eins og hv. þm. Halldór Blöndal gat um hefur þeim fjölgað sem vilja styðja þessa tillögu. Nú flytur hana vænn hópur hv. þingmanna og ég er sannfærð um að hún á mikinn stuðning í sölum Alþingis. Ég get sagt það með nokkurri vissu þar sem í bígerð er að stofna þjóðgarð norðan Vatnajökuls. Nefndin sem vann þá tillögu eða skýrslu í hendur hæstv. umhverfisráðherra gerir ráð fyrir því að í væntanlegum Vatnajökulsþjóðgarði verði til staðar friðlýsing sem nái frá strönd til strandar, þ.e. að friðlýsingin nái ekki einungis yfir jökulhettu Vatnajökuls heldur einnig um sandana sunnan hans og með Jökulsá á Fjöllum, upptakaám hennar frá Vatnajökli norður í Öxarfjörð.

Nefndin sem skilaði umhverfisráðuneytinu skýrslu í maí 2004 hafði unnið í eitt og hálft ár að því að gera tillögur um stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis. Verkefni hennar var lokið með miklum glæsibrag og efnismikilli skýrslu sem mikið gagn hefur verið að við að gera sér grein fyrir því á hvern hátt þessi öflugi þjóðgarður geti litið út.

Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í bréf sem þáverandi umhverfisráðherra, hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, barst frá nefndinni þegar hún skilaði af sér. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndin leggur til að þegar verði hafist handa við undirbúning að stofnun þjóðgarðs sem taki til viðeigandi hluta Vatnajökuls og víðáttumikilla svæða norðan hans og allt til sjávar með Jökulsá á Fjöllum. Nefndin leggur fram tillögur að mörkum þjóðgarðsins og verndarstigi einstakra svæða innan hans þar sem m.a. er horft til þess að raska sem minnst núverandi landnýtingu enda fari hún fram með sjálfbærum hætti. Samhliða undirbúningi að stofnun þjóðgarðsins verði byrjað á nauðsynlegri uppbyggingu bæði innan svæðisins og við jaðra þess. Nefndin telur slíka uppbyggingu vera, ásamt traustum fjárhagsgrundvelli verkefnisins og góðu samstarfi við heimamenn, forsendu þess að vel takist til.“

Eins og hv. framsögumaður þessarar þingsályktunartillögu gat um er gert ráð fyrir að hefðbundnar landnytjar á svæðinu geti haldist í skýrslu þessarar nefndar. Það er algjör eining um það, eftir því sem næst verður, komist að slíkt geti að sjálfsögðu haldið áfram á öllu svæðinu. Ég tek undir þau orð hv. þm. Halldórs Blöndals að bændur og landeigendur þurfi ekki að óttast annað en þar haldi áfram þær landnytjar sem til staðar eru. Þar ber kannski að þakka því flokkunarkerfi sem Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin hafa komið upp varðandi þjóðgarða. Í skýrslu nefndarinnar sem vann tillöguna um Vatnajökulsþjóðgarðinn er flokkunarkerfinu gerð ágæt skil. Þar kemur fram að leiðbeiningar Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna um flokkunarkerfið miða fyrst og fremst að því að auðvelt sé að stuðla að réttri og samræmdri notkun kerfisins og um leið að rökrétt og sambærileg flokkun sé á milli landsvæða. Það er tekið fram í þessu flokkunarkerfi að mestu máli skipti að markmið friðlýsingar samræmist flokkuninni og að allar aðstæður séu fyrir hendi, m.a. við stjórnun, til að þau náist.

Í flokkunarkerfinu er gert ráð fyrir að hægt sé að friðlýsa svæði sem stjórnað er vegna ólíkra gilda. Þar er hugsanlega um að ræða landsvæði sem eingöngu er stjórnað út frá vísindalegum gildum eða til verndar óbyggðum sérstaklega, til verndar ákveðnum vistkerfum eða til útivistar. Svæðunum getur líka verið stjórnað til varðveislu tiltekinna afmarkaðra náttúrulegra fyrirbæra og einnig til að vernda tegundir, ákveðnar dýrategundir, búsvæði eða vistgerðir. Það má líka hugsa sér að landslag sé sérstakur þáttur í þessu og svo mætti áfram telja. Að lokum segir í flokkunarkerfi Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna að friðlýst svæði geti líka lotið stjórn sem einkum er hugsuð út frá sjálfbærri nýtingu náttúrulegra vistkerfa. Með flokkunarkerfinu er okkur hægur vandi að stofna stóran þjóðgarð sem nær yfir stórt og víðáttumikið landsvæði en lýtur að ólíkri stjórn út frá því hvaða flokkun hvert svæði fyrir sig hefur hlotið.

Ég tel eðlilegt, eins og mál hafa þróast og umræðan um náttúruverndarmál síðustu missirin og árin, að Alþingi Íslendinga fái tækifæri til að taka sjálfstæða ákvörðun um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum. Við vitum að Vatnajökulsþjóðgarður er í undirbúningi. Það kann að verða verkefni sem gengið verður frá í ákveðnum þrepum og kann að taka ákveðinn tíma. Ég held að það sé ákveðið umburðarlyndi sem fólk sýnir því. En ég tel tímabært að Alþingi Íslendinga fái tækifæri til að taka afstöðu til friðlýsingar Jökulsár á Fjöllum sérstaklega. Það er ekki einasta nauðsynlegt með tilliti til þess að þar með eru slegnir til hliðar þeir aðilar sem horfa enn hýru augu til árinnar sem nýtingarkosts heldur líka vegna þess að Alþingi hefur sýnt Jökulsá á Fjöllum sérstakan áhuga í gegnum tíðina.

Mér þykir gaman að rifja upp eina af rótunum að þessari tillögu og sem tillagan um Vatnajökulsþjóðgarð hvílir á en á Alþingi 1998 lagði Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi hv. þingmaður, tillögu til þingsályktunar um fjóra þjóðgarða á miðhálendi landsins þar sem stærstu jöklar landsins voru megináherslan. Í málflutningi Hjörleifs kom glögglega fram hversu mikilvægt jökulvatnið sem rennur frá þessum jöklum er. Þessi rás sem jökulvatnið fær í Jökulsá á Fjöllum er svo stórfengleg, (Forseti hringir.) mikilfengleg og tilkomumikil að það yrði verulegur fengur í því fyrir heiminn að hún yrði vernduð til allrar framtíðar.