Stúdentspróf

Miðvikudaginn 15. febrúar 2006, kl. 12:30:29 (4968)


132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Stúdentspróf.

358. mál
[12:30]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Þetta eru fróðlegar upplýsingar sem hér koma fram og hefði verið enn fróðlegra að sjá sambærilegar tölur um starfsnámsbrautir og frekari upplýsingar um kynjaskiptingu. Grundvallarspurningin í þessu hlýtur hins vegar að vera: Hvað er það sem veldur námshraða? Við þeirri spurningu er að sjálfsögðu ekkert einfalt svar. En það er rétt að vekja athygli á því að kostir áfangakerfisins eru einmitt þeir að geta lagað sig að ólíkum námsþörfum og getu nemenda. Það er sveigjanleikinn. Ég hygg hins vegar að ef við ætlum að reyna að svara þessari stóru spurningu, hvað veldur námshraða, þá verðum við að taka inn það merkilega hugtak gildismat. Gildismat nemanda hverju sinni. Ég leyfi mér að fullyrða að eitt stærsta vandamálið, ef má kalla það svo, sé hversu mikið nemendur vinna með námi. Ekki endilega til að eiga fyrir salti í grautinn eða námsbókum heldur til að sinna ýmsu tómstundagamni. Kannski er það æskilegt en það hlýtur að koma niður á námi og metnaði og er í sjálfu sér ekkert einfalt að leysa. (Forseti hringir.)