Rekstur framhaldsskóla

Miðvikudaginn 15. febrúar 2006, kl. 12:48:43 (4976)


132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Rekstur framhaldsskóla.

443. mál
[12:48]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er mikilvægu máli hreyft og ber að þakka fyrir þessa fyrirspurn hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Það er eðlilegt að skoða það að framhaldsskólinn flytjist einnig til sveitarfélaganna. Það er líka eðlilegt að sveitarstjórnir hafi við það varnagla vegna þess að við höfum dæmi frá því þegar grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna um að þá kom ekki það fjármagn með sem til þurfti.

Nú vitum við öll að grunnskólarnir hafa stórbatnað á þessum tíma. En mörg lítil sveitarfélög berjast hins vegar í bökkum við að fjármagna sína skóla. Þess vegna verður að vera alveg á hreinu, ef til þess kemur að framhaldsskólinn verði einnig fluttur til sveitarfélaga, að þá komi tekjustofnar með. Það er grundvallaratriði.

Síðan er mjög mikilvægt að stofna fleiri framhaldsskóla, t.d. við utanverðan Eyjafjörð, til þess að nemendur þurfi ekki að sækja langa leið í framhaldsskóla heldur geti gert það í sinni heimabyggð.