Rekstur framhaldsskóla

Miðvikudaginn 15. febrúar 2006, kl. 12:51:12 (4978)


132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Rekstur framhaldsskóla.

443. mál
[12:51]
Hlusta

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil bara taka undir það að mér finnst þetta mjög áhugaverð hugmynd sem kemur fram hjá hv. þingmanni. Ég tel að flutningur framhaldsskólanna til sveitarfélaganna mundi styðja við viðkomandi atvinnusvæði. Hægt væri að leggja áherslu á sérstöðu svæðisins og aukin tengsl við atvinnulífið, eins og hann benti á. Í mínu sveitarfélagi hefur til dæmis verið mikill áhugi á að auka sérstöðu framhaldsskólans og tengja hann enn frekar við atvinnulífið. Komið hafa fram hugmyndir um aukna verkmenntun í sjávarútvegi og uppbyggingu heimavistar. Allt þetta mundi styðja atvinnulífið. Ég vil því gjarnan hvetja hæstv. menntamálaráðherra til að skoða þessa hugmynd enn frekar og þá væntanlega í samráði við hæstv. félagsmálaráðherra og átak hans um eflingu sveitarstjórna.