Áfengisauglýsingar í útvarpi

Miðvikudaginn 15. febrúar 2006, kl. 13:47:51 (5008)


132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Áfengisauglýsingar í útvarpi.

507. mál
[13:47]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka þetta mál hér upp rétt einu sinni. Ég tel mig vera sæmilega frjálslyndan mann en ég vil þó standa vörð um þá sérstöðu okkar að vera með bann við áfengisauglýsingum. Hvort sem þær eru í ljósvakamiðlum eða í blöðum. Mér finnst það bara gott, ég er ekki viss um að það mundi ná í gegn í dag að banna þetta, ef þetta væri leyft. En þetta er bann sem er í gildi og að sjálfsögðu á að framfylgja því.

Það er auðvitað lögregluyfirvalda að framfylgja því þegar menn brjóta svo á með því að birta mynd af bjórdós sem er nákvæmlega eins, hvort sem hún er 5% bjór eða eins og þeir segja, 0,0%, sem ég held að sé reyndar ekki til og ekki hægt að búa til. Þannig að auglýsingin sem slík er röng og á að sjálfsögðu að vísa henni frá þó ekki væri fyrir nema það.

En ég tek svo undir, virðulegi forseti, að það var ákaflega smekklaust þegar hálfgerð áfengisauglýsing birtist í Kastljósi á eftir umræðuþætti við forseta Íslands um áfengismál og vímuefnamál, (Forseti hringir.) eins og hv. fyrirspyrjandi gat hér um áðan. Það var (Forseti hringir.) ákaflega smekklaust.