Barnaklám á netinu

Miðvikudaginn 15. febrúar 2006, kl. 14:55:15 (5042)


132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Barnaklám á netinu.

506. mál
[14:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sandra Franks) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með að hæstv. ráðherra skuli með svo jákvæðum hætti taka undir hugmyndir um að netsíum verði beitt til að draga úr notkun og þar með framleiðslu á barnaklámi. Ég nefndi það fyrr í ræðu minni, eins og hæstv. ráðherra gerði í svari sínu, að Norðmenn hefðu tekið þær upp og virtust satt að segja mjög ánægðir með það. Þar í landi fá netþjónusturnar lista yfir ólöglegar vefsíður frá yfirvöldum og þeim er lokað þannig að menn komast ekki inn á þær. Í stað þess opnast síðan og upp kemur gluggi sem segir viðkomandi að hann hafi reynt að komast inn á ólöglega vefsíðu.

Í Noregi hafa daglega mælst allt að 7 þúsund tilraunir til að komast inn á síður af þessu tagi. Engin skrá er hins vegar haldin yfir þá sem reyna slíkt enda væri það fráleitt að mínum dómi og í andstöðu við stjórnarskrá og persónuverndarlög. Svipað kerfi væri auðvelt að taka upp hér á landi og ég hef skoðað hvernig Norðmenn taka á þessu máli í lögum og stjórnarskrá. Þar var stjórnarskránni breytt fyrir skömmu og tjáningarfrelsisákvæðið var endurskoðað með mjög róttækum hætti. Almennt var það rýmkað mjög en hins vegar þrengt hvað varðar barnaklám. Norska stjórnarskráin veitir hinu opinbera sérstakar heimildir til að grípa til aðgerða sem hindra miðlun og notkun barnakláms á netinu og í hvítbók norsku ríkisstjórnarinnar, þar sem breytingartillögur hennar voru upphaflega kynntar, var það rökstutt með því að þar væru meiri hagsmunir, þ.e. hagsmunir barnanna, teknir fram yfir réttinn til að tjá sig með hætti sem fallið gæti undir barnaklám. Ég er því sjónarmiði algerlega sammála og ég tel að netsíur séu mjög góð leið til að vinna gegn barnaklámi. Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér af krafti fyrir því að þær verði teknar upp í þeim tilgangi.