Viðhald vega

Miðvikudaginn 15. febrúar 2006, kl. 14:59:41 (5044)


132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Viðhald vega.

488. mál
[14:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mikið er rætt um ástand vegakerfisins á Íslandi þessa dagana, og reyndar um samgöngumál almennt, og ekki að ófyrirsynju. Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á umferðinni á Íslandi, bílum hefur fjölgað en það sem gerir þó ástandið alvarlegast og verst er hversu mjög flutningabílum hefur fjölgað úti á þjóðvegunum og hve þeir hafa stækkað. Það er óhjákvæmilegt ef maður er úti á þjóðvegunum á vissum tímum dagsins að mæta jafnvel tugum stórra flutningabíla með tengivagna aftan í. Þetta er hreint ekkert gamanmál, frú forseti, sérstaklega ekki í skammdeginu í myrkri og rigningu þar sem skyggni er slæmt.

Enda er það svo að þó að slysum hafi ekki fjölgað tiltakanlega mikið af þessum sökum þá hefur óhöppum fjölgað. Sum flutningafyrirtæki halda skrá yfir það hversu margir hliðarspeglar á bílunum þeirra skemmast eða fara af beinlínis vegna þess að bílar rekast saman þegar þeir mætast. Það segir okkur hversu oft liggur nærri slysum. Speglarnir eru að vísu stórir og standa talsvert langt út frá bílunum en þetta segir okkur að það er beinlínis ekki pláss fyrir tvo bíla á veginum miðað við þann hraða og þá miklu umferð sem um er að ræða.

Vegirnir á Íslandi eru mjóir og þeir eru ekki byggðir fyrir þá miklu umferð sem ég er hér að lýsa. Fyrir vikið láta þeir undan, þeir eru missignir og jafnvel núna á þessum árstíma, þegar við erum yfirleitt með frosna jörð, eru þungatakmarkanir í gildi víða á landinu.

Ég heyrði nýlega í fréttunum að það þyrfti að stórauka fjármagn til viðhalds á vegum á Íslandi vegna þessa ástands og þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra:

Hvernig hyggst ráðherra bregðast við upplýsingum um stóraukna fjárþörf til viðhalds vegakerfisins vegna aukinna þungaflutninga?