Þróun skattprósentu

Miðvikudaginn 15. febrúar 2006, kl. 15:23:02 (5052)


132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þróun skattprósentu.

454. mál
[15:23]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Þetta var mikil talnaruna og prósenturuna sem fjármálaráðherra þurfti að ryðja út úr sér á nokkrum mínútum. Hefði verið tilvalið að fá þetta svar frekar skriflegt, ég held að það hefði verið augljósara fyrir alla.

Auðvitað er það hárrétt sem hv. þm. Jón Gunnarsson kemur inn á. Það er verið að reyna að afvegaleiða umræðuna. Það er nákvæmlega það sem hann sagði, það er ekki verið að bera saman sömu laun á stóru árabili. Það er allt annað að vera með 100 þús. kr. í laun árið 1995 og síðan árið 2008. Af því að þetta er svona nákvæmlega allt með 50 þús. kr. bili hefði ég kannski líka viljað fá tölur um hverjar skattprósentur eru hjá þeim sem eru með hálfa milljón á mánuði eða jafnvel milljón. Ég held að það sé að verða algengara.

Staðreyndin er auðvitað sú að þeir sem hæst hafa launin í þessu landi — og þau eru alltaf að hækka — eru alltaf að borga minni og minni skatt á meðan þeir sem lægst hafa launin þurfa að borga meiri skatta.