Skuldbreytingar hjá Íbúðalánasjóði

Mánudaginn 20. febrúar 2006, kl. 15:26:41 (5153)


132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Skuldbreytingar hjá Íbúðalánasjóði.

[15:26]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er athyglisvert að fá svona spurningu frá hv. þingmanni. Ástæðan fyrir þeirri stöðu mála sem hv. þingmaður lýsti er sú að ríkissjóður þarfnast tekna til að standa undir þeim útgjöldum sem ríkissjóði ber að standa straum af, m.a. í velferðarkerfinu. Þetta er ein af þeim tekjuöflunarleiðum sem Alþingi hefur samþykkt að nýta sér í þessum tilgangi. Það má auðvitað hugsa sér að Alþingi aflaði þessara tekna á einhvern annan hátt og sjálfsagt mun það koma til skoðunar í framtíðinni þegar við endurskoðum tekjuöflunarkerfi ríkisins. Auðvitað gæti líka komið til, ef menn vildu hafa það þannig, að skattheimta á þennan hátt yrði minnkuð en útgjöld yrðu lækkuð á móti. Auðvitað þurfum við líka að endurskoða útgjöld ríkisins, eins og við þurfum að endurskoða tekjuöflunina.

Þetta er nú ekki flóknara mál en svo að ég er búinn að fara yfir það á einni mínútu og ég verð eiginlega að undrast það að hv. þingmaður skuli ekki hafa áttað sig á þessu. Mig grunar þó helst að þetta sé ein af þeim hugmyndum sem hv. þingmaður fær til að vekja á sjálfum sér athygli og reyna að gera lítið úr því sem verið er að vinna í ríkisfjármálunum. Hann telur sjálfsagt að þetta sé til skammtímavinsælda fallið. Það kerfi sem við höfum verið með í gildi hvað þetta varðar hefur verið í gildi í allmörg ár, við þekkjum það mjög vel og hv. þingmaður á að þekkja það líka.