Raforkumálefni

Mánudaginn 20. febrúar 2006, kl. 16:40:32 (5185)


132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[16:40]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og framsöguræðuna. Það eru tvær spurningar áður en við förum út í umræðuna. Í fyrsta lagi kemur fram að almenn raforkunotkun vex u.þ.b. 3% á hverju ári og nokkuð stórum orðum er farið um að raforkunotkun á mann sé meiri hérlendis en í nokkru öðru OECD-ríki vegna þessa mikla og stöðuga vaxtar í almennri notkun. En ég sakna þess sárlega að ekkert skuli vera fjallað um orkusparnað eða orkusparnaðaráætlun og mundi gjarnan vilja fá hæstv. ráðherra til að segja nokkur orð um hverju það sætir.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja um ummæli á bls. 61 þar sem segir um rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um vatnsafl og jarðvarma að bæta þurfi úr annmörkum ýmissa kosta sem teknir voru fyrir í fyrsta áfanga áætlunarinnar og gætu þýtt betri gögn eða nýja tilhögun. Ég vil fá að vita: Hvaða kostir eru þetta?