Aukatekjur ríkissjóðs

Þriðjudaginn 21. febrúar 2006, kl. 16:34:37 (5283)


132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:34]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir málefnalegt andsvar. Ég er sammála, held ég, nær öllu sem þar kom fram. Hv. þingmaður hefur vakið athygli fyrir skelegga framkomu í þinginu og er dugleg að kalla hér fram ýmsar upplýsingar. Ég er sammála þeim málflutningi sem hér var viðhafður. Það er ekki mörgu við það að bæta. Hins vegar minntist hv. þingmaður á að hún væri ósammála varðandi styrkjasjóðina. Það er allt í lagi. Við þurfum ekkert að vera sammála um alla hluti. Ég er ekki að halda því fram hins vegar að styrkir hafi aldrei komið sér vel. Því fer algerlega víðs fjarri. Það er oft sem einmitt litlir styrkir hafa hjálpað mikið og maður sér það. Ég nefndi það hins vegar að mér finnst betra að leggja áherslu á almennt rekstrarumhverfi og að við sjáum til þess að hér séu lágir skattar og gjöld á viðkomandi atvinnurekstur frekar en leggja upp úr miklu styrkjafyrirkomulagi, þó svo það sé að sjálfsögðu rétt hjá hv. þingmanni að þeir styrkir sem veittir eru til nýsköpunar hafa oftar en ekki komið að góðum notum. Það er að vísu mín skoðun — ég veit ekki hvort við getum farið mikið út í það hér — að við þyrftum aðeins að líta á þetta líka í stærra samhengi. Það er bara einn liður að lækka þessi gjöld. Ég held að við gætum gert margt fleira til að hjálpa og ýta undir nýsköpun hér á landi. Þá getum við lært ýmislegt af þeim þjóðum sem við berum okkur saman við. Þó allt gangi í haginn í efnahagslífinu núna er ekki þar með sagt að svo verði alltaf. Við eigum að hafa að markmiði að hér sé frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunarstarfsemi eins öflug og mögulegt er.