Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu

Miðvikudaginn 22. febrúar 2006, kl. 12:01:06 (5304)


132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs í ljósi þeirra hræringa sem nú eiga sér stað í fjármála- og efnahagskerfinu en sem kunnugt er hefur krónan fallið um 9% og hlutabréf lækkað mikið í viðskiptum í Kauphöll Íslands, bæði í gær og í morgun. Þetta gerist í kjölfar þess að alþjóðamatsfyrirtækið Fitch Ratings sendi frá sér alvarlega viðvörun um efnahagsstjórn á Íslandi og jafnframt þau skilaboð að breyting kunni að verða á lánshæfismati ríkissjóðs Íslands verði ekki breyting á.

Í fjölmiðlum í gær kom einnig fram gagnrýni af hálfu Seðlabanka Íslands þar sem bent var á að þetta hljóti að verða stjórnvöldum og þeim sem stýra efnahagslífinu alvarleg áminning. Um nokkurra missira skeið hafa ýmis teikn um hættuástand hrannast upp, nokkuð sem Seðlabankinn hefur lýst sem ógnarjafnvægi í íslensku efnahagslífi, og við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum margoft varað við viðvarandi viðskiptahalla, þenslu sem hefur verið handstýrð af hálfu ríkisstjórnarinnar, sem aftur hefur leitt til hávaxtastefnu, mikils vaxtamunar við útlönd og þar af leiðandi erfiðrar samkeppnisstöðu útflutningsgreina.

Auðvitað hlaut að koma að því fyrr eða síðar að gengi krónunnar aðlagaðist framleiðslugetu íslensks efnahagslífs. Enn á eftir að koma í ljós hvert framhaldið verður nú og vonandi verða engar snöggar breytingar, enda í samræmi við óskir okkar, og nokkuð sem við höfum talað fyrir í tvö ár, að gripið verði til víðtækra ráðstafana til varnar íslensku atvinnulífi svo hræringar í fjármálalífinu og þar af leiðandi atvinnulífinu öllu verði án kollsteypu.

Það er slæmt að geta ekki átt orðastað við hæstv. forsætisráðherra um þetta efni en hann mun hafa haldið utan til Lundúna í morgun, bæði til fundahalda og til að fylgjast þar með knattspyrnuleik í kvöld.

Hæstv. forseti. Ég taldi rétt að vekja athygli á því að fyrir Alþingi liggur þingmál frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þar sem settar eru fram tillögur, sniðnar að því að beina íslensku fjármála- og efnahagslífi (Forseti hringir.) inn á öruggari mið en við erum á nú.