Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu

Miðvikudaginn 22. febrúar 2006, kl. 12:07:30 (5307)


132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:07]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vara við því að tala mjög óvarlega þó að þessi spádómur frá Fitch-fyrirtækinu hafi komið. Við erum núna í toppi okkar efnahagssveiflu og auðvitað tekur það á. Lánshæfismat okkar hefur verið afar hátt um langan tíma og ég spái því að svo verði áfram. Við megum ekki oftúlka þessa spá, þetta er spá sem gerð er einmitt þegar við erum á toppi efnahagssveiflu okkar og þenslu og það hýtur að taka í.

Hvað er það sem spádómurinn segir, þetta ágæta fyrirtæki? Þeir spá því að svo kunni að fara að mat okkar verði neikvætt. Þeir spá því en eru ekki að leggja þann dóm á að svo sé í dag. Þetta hefur áður gerst, menn hafa áður spáð slíku á síðustu 10 árum en sá spádómur reyndist ekki vera réttur, við fengum hina svokölluðu frægu mjúku lendingu. Þá er líka hægt að vekja athygli á því að í efnahagslífi okkar núna njóta fyrirtækin góðs, m.a. fékk einn af bönkunum okkar hæsta mat, sambærilegt við það sem ríkissjóður fær. Við hljótum líka að velta fyrir okkur ástæðunum, af hverju er þetta ástand núna? Það eru margvíslegar ástæður og ekki rétt, eins og hér bar við, að taka eitthvert eitt dæmi. Eitt af því sem við hljótum að horfa á er hvernig við afgreiðum fjárlög með meiri afgangi en nokkru sinni. Sá þáttur ætti að vera í þokkalegu lagi. Við vitum hins vegar að neyslan er mikil, en stærsti hlutinn á væntanlega rætur að rekja til þess að erlendir fjárfestar fjárfesta í íslenskum bréfum og gera þar hugsanlega út á mikinn vaxtamun sem er hérlendis. Það skyldi þó ekki vera ástæða til þess einmitt fyrir Seðlabankann að skoða það að lækka þá vexti til að hinir erlendu fjárfestar (Forseti hringir.) geri ekki út á þennan vaxtamun (Forseti hringir.) sem er líklega stærsta ástæðan.