Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu

Miðvikudaginn 22. febrúar 2006, kl. 12:09:44 (5308)


132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:09]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það var við því að búast að fram kæmu aðvörunarorð frá aðilum á markaði, eins og hér hefur gerst. Það er full ástæða fyrir ríkisstjórnina til að taka þau alvarlegar en viðvaranir frá innlendum stofnunum og frá stjórnarandstöðunni í efnahagsumræðunni undanfarið. Tal um hina mjúku lendingu, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason viðhafði og hæstv. forsætisráðherra gerði í gærkvöldi, er til vitnis um kæruleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Hin mjúka lending 2001 var 9% verðbólga. Nærri 10% verðbólga. Hvergi í þróuðu ríki leyfði forsætisráðherra sér að lýsa því yfir að nærri 10% verðbólga væri mjúk lending. Nærri 10% verðbólga á einhverjum skuldsettustu heimilum í Evrópu er verulegt áfall og áhyggjuefni. Þess vegna þarf af yfirvegun en af mikilli alvöru að hlusta á ábendingar og athugasemdir um það sem betur má fara í efnahagsstjórninni. Við hljótum að fagna því að hæstv. forsætisráðherra hefur þegar brugðist við með því að lýsa því yfir að þrjú álver komi ekki til greina. Ég held að það sé mikilvægt að ríkisstjórnin taki af tvímæli um það hvort tvö ný álver komi til greina. Markaðurinn þarf augljóslega að vita hvort ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir hundrað og eitthvað milljarða nýjum fjárfestingum eða þrjú hundruð milljarða nýjum fjárfestingum hér fyrir forgöngu ríkisstjórnarinnar á næstu missirum. Auðvitað hefur það líka áhrif á það mikla þensluástand sem hér er.

Umfram allt er rétt að fjalla um þessar aðvaranir af aðgát og varfærni vegna þess að við vitum líka að íslenskt atvinnu- og efnahagslíf er þróttmikið (Forseti hringir.) og burðugt ef ríkisstjórnin vinnur með því en ekki (Forseti hringir.) gegn því með að auka sífellt á þensluna og hella olíu á eldinn.