Dagpeningar til foreldra langveikra barna

Miðvikudaginn 22. febrúar 2006, kl. 13:24:39 (5338)


132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Dagpeningar til foreldra langveikra barna.

523. mál
[13:24]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Söndru Franks, fyrir að vekja máls á þessu. Ég vil taka undir með þeim sem talað hafa fyrir því að dagpeningar til foreldra langveikra barna utan af landi verði teknir upp. Eins og hér hefur komið fram getur verið um verulegt rask á fjölskylduhögum að ræða.

Ég tel að í samfélagi okkar eigi fjölskyldur langveikra barna ekki að þurfa að glíma við fjárhagsáhyggjur á sama tíma og þær glíma við sorgina yfir að eiga langveikt barn, óttann og óöryggið. Velferðarsamfélagið á Íslandi á að tryggja að foreldrar langveikra barna búi ekki við fjárhagsáhyggjur og að foreldrar alls staðar að af landinu sitji við sama borð. Það þarf töluvert til að taka sig upp utan af landsbyggðinni og koma í bæinn vegna slíkra aðstæðna.