Hreyfing sem valkostur í heilbrigðiskerfinu

Fimmtudaginn 23. febrúar 2006, kl. 12:36:22 (5412)


132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Hreyfing sem valkostur í heilbrigðiskerfinu.

220. mál
[12:36]
Hlusta

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um hreyfingu sem valkost í heilbrigðiskerfinu. Flutningsmaður er sú sem hér stendur ásamt hv. þm. Drífu Hjartardóttur, Þuríði Backman, Gunnari Örlygssyni, Guðrúnu Ögmundsdóttur og Magnúsi Stefánssyni.

Tillagan fjallar um hreyfingu sem valkost í heilbrigðiskerfinu eins og áður sagði, sem þýðir að boðið verði upp á svokallaða hreyfiseðla eða grænar ávísanir eða hreyfiávísanir í heilbrigðisþjónustunni í staðinn fyrir að gefa fólki strax lyf eða vísa því í aðgerðir. Annars staðar á Norðurlöndum er talað um að fara frá lyfjum til líkamsræktar eða „fra medicin til motion“ en í Noregi hefur þessi leið gengið undir nafninu grænar ávísanir. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa að hreyfing geti orðið valkostur í heilbrigðisþjónustu, sem lækning og í fyrirbyggjandi tilgangi, þannig að læknar geti vísað á hreyfingu sem meðferð við sjúkdómum á sama hátt og vísað er á lyf eða læknisaðgerðir. Nefndin kanni kostnað og ávinning af fyrirkomulaginu. Hún meti hvort gera þurfi breytingar á lögum til að ná þessu markmiði og hvort setja þurfi á laggirnar nám eða endurmenntun fyrir þá sem hafa umsjón með hreyfingar-, lífsstíls- eða þjálfunaráætlunum.“

Við leggjum til að nefndin verði skipuð sjö mönnum. Ráðherra skipi formann án tilnefningar og landlæknir, Læknafélag Íslands, Samtök sjúkraþjálfara, heilsugæslan, Íþróttasamband Íslands og Lýðheilsustofnun tilnefni einn hver. Nefndin skili tillögum sínum í janúar 2006, stendur hér, þannig að breyta þarf þeirri dagsetningu þegar málið verður samþykkt sem ég trúi ekki öðru en að verði fljótlega.

Í greinargerð skýrum við frá hvers vegna við teljum ástæðu til að taka upp þessa leið. Á tímum síhækkandi útgjalda til heilbrigðiskerfisins, þar sem lyfjanotkun eykst stöðugt og aðgerðum á sjúkrahúsum fjölgar ár frá ári, hefur vægi hreyfingar í meðferð sjúklinga í grannlöndum okkar aukist. Í stað þess að læknir skrifi lyfseðil eða sendi sjúkling í aðgerð á sjúkrahúsi skrifar hann upp á ráðgjafar- og hreyfiáætlun þar sem sjúklingur getur tekist á við heilsuleysið með eigin atorku.

Útgjöld heilbrigðiskerfisins aukast sífellt en komið hefur í ljós á Norðurlöndunum, síðast þegar ég spurðist fyrir um það, að aukin notkun þessarar leiðar hefur dregið úr þeim útgjöldum.

Ýmsir menningarsjúkdómar sem orsakast af óheilbrigðu líferni kosta samfélagið sífellt hærri fjárhæðir og það er ekki aðeins vandamál einstaklinga heldur samfélagsins alls. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er rúmlega 1 milljarður manna of þungur, þar af þjást 300 milljónir þeirra af offitu og telur stofnunin offitu vera annað stærsta heilbrigðisvandamálið í heiminum, næst á eftir reykingum.

Hér á landi hefur offita meðal fullorðinna tvöfaldast á 20 árum og er komin yfir 20% og hjá 9 ára börnum fjórfaldaðist hún á tímabilinu 1978–2002. Ofþyngd hefur líka aukist, en 65% fullorðinna hér á landi eru yfir æskilegri þyngd og fylgir því fjöldi sjúkdóma.

Nefndin sem við leggjum til að verði skipuð þyrfti að leita eftir upplýsingum um hvernig hreyfimeðferð var komið á í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og hver reynslan hefur verið af þessu fyrirkomulagi þar. Þá þarf nefndin að meta hvort almannatryggingarnar eigi að taka þátt í hreyfingaráætlun sem læknar vísa á og hvernig eftirliti og eftirfylgni skuli háttað. Mig langar að nefna að á Norðurlöndunum hefur tryggingakerfið aðeins komið inn í stuðning fyrir þá sem eru illa staddir fjárhagslega, öryrkja, atvinnulausa o.s.frv. En að öðrum kosti hafa menn oftast greitt fyrir þessa meðferð sjálfir ef hún hefur kostað eitthvað. Einnig þarf nefndin að athuga hvort mennta þurfi sérstaka hreyfingarráðgjafa og þá hvernig þeirri menntun skuli háttað. Hún gæti verið viðbótarmenntun við ýmsa aðra menntun, svo sem sjúkraþjálfun, líkamsræktar- og íþróttanám, félagsráðgjöf, næringarfræði og hjúkrun svo að dæmi séu tekin. Annars staðar á Norðurlöndunum er farið að bjóða nám fyrir þá sem vilja starfa við stuðning, eftirfylgni og ráðgjöf þeirra sjúklinga sem fara þessa leið. Að auki þarf nefndin að koma með tillögur um það hvernig auðvelda skuli læknum að vísa á hreyfingu í stað lyfja, svo sem með stöðluðum formum eða rafrænum lausnum. Þá gætu stofnanir eins og landlæknisembættið, Lýðheilsustöð eða heilsugæslan gefið út handbók með leiðbeiningum, en það hefur einmitt verið gert á Norðurlöndunum. Þar hafa verið gefnar út sérstakar ávísanir sem menn fylla út í þessu skyni alveg eins og verið er með sérstakar lyfjaávísanir þegar menn vísa á lyf.

Nefndin meti hvort sú leið sem hér er lögð til er ákjósanleg eða hvort aðrar leiðir skuli farnar til að koma á hreyfingu sem valkosti í heilbrigðisþjónustunni. Þá meti nefndin hvort gera þurfi breytingar á lögum til að ná þessu markmiði og hvort setja þurfi á laggirnar nám eða endurmenntun fyrir þá sem sinna umsjón með hreyfingar-, lífsstíls- eða þjálfunaráætlunum. Ég er þeirrar skoðunar að hægt væri að gera þetta án þess að breyta lögum

Við vitum að miklar samfélagslegar breytingar á síðustu áratugum, tækninýjungar og líkamlega léttari störf hafa leitt til minni hreyfingar og orkuþarfar fólks. Þessi þróun hefur síðan leitt til þess að ofþyngd og offita hefur aukist. Í heimsókn heilbrigðisnefndar Alþingis á Reykjalund í nóvember 2004, þar sem árangursrík meðferð við offitu býðst, bentu forsvarsmenn stofnunarinnar á alvarlegar afleiðingar þessa ástands. Dánartíðni vegna offitu hefur tvöfaldast, kæfisvefn og sykursýki tífaldast, hjarta- og æðasjúkdómar þrefaldast, og sama á við um stoðkerfisverki og slitgigt, ýmsar gerðir krabbameins eru nú allt að tvöfalt algengari en áður og ófrjósemi hefur aukist. Algengir andlegir fylgikvillar eru síðan þunglyndi, vanmetakennd, kvíði og félagsfælni.

Offita hefur einnig ýmsar félagslegar afleiðingar, svo sem einelti, einangrun og fordóma sem síðan leiða til minni möguleika til náms, atvinnu og til að stofna fjölskyldu. Oftar en ekki er félagsleg staða þessa fólks slæm og líkleg til að leiða til örorku. Þetta gæti því jafnvel forðað fólki frá því að lenda á örorkubótum og orðið til þess að það nái aftur heilsu og geti komist út í atvinnulífið.

Offita veldur miklum kostnaði í heilbrigðiskerfinu eins og ég hef bent á. Algengustu sjúkdómarnir sem rekja má til óheilbrigðra lífshátta eru hjarta- og æðasjúkdómar, hár blóðþrýstingur, sykursýki eldra fólks og áunnin sykursýki, sem hefur líka aukist hjá börnum eins og ég benti á í gær, þegar ég var að ræða um að takmarka auglýsingar á óhollu fæði sem beint er að börnum. Þetta er orðið raunverulegt heilbrigðisvandamál hjá börnum og á eftir að verða baggi á velferðarkerfinu í heild ef ekkert verður að gert. Hreyfing og hollusta er einmitt leið til að sporna við þeirri þróun.

Eins og ég nefndi í upphafi eru nágrannaþjóðir okkar komnar með reynslu af þessari leið. Svíar, Danir og Norðmenn hafa í nokkur ár boðið upp á ávísanir á hreyfingu sem úrræði í stað þess að vísa á lyf og hafa gefið út handbækur um það. Í leiðbeiningabók sem heilbrigðisyfirvöld gáfu út í Danmörku kemur fram að þessi leið gagnist best sem meðferð við æða-, stoðkerfis-, efnaskipta-, lungna- og geðsjúkdómum. Rannsóknir sýna að þetta er raunhæfur kostur en læknar verða auðvitað að meta það hverju sinni hvað hentar hverjum og einum og ekki er víst að þessi leið henti öllum en þeir útbúa sérstaka meðferðarávísun fyrir hvern og einn þannig að það er einstaklingsbundið hvers konar áætlun menn fá. Bandarísk rannsókn þar sem eldra fólki með stoðkerfisvandamál var boðið upp á vatnsleikfimi í stað liðskiptaaðgerðar sýndi að helmingur þeirra sem völdu þá leið fengu bót meina sinna og þurfti ekki að fara í skurðaðgerð sem kemur sér vel fyrir sjúkling þar sem skurðaðgerðir hafa alltaf einhverja hættu í för með sér, allt inngrip er hættulegt, auk þess sem þetta sparar samfélaginu mikla fjármuni því að hver liðskiptaaðgerð kostar mikla peninga, hnéaðgerð eða mjaðmaaðgerð kostar á aðra milljón hér á landi. Þetta er því mjög góður kostur og mótvægi gegn dýrum lyfjum og skurðaðgerðum.

Frá 2002 hafa dönsku ömtin boðið upp á þetta og síðast þegar ég spurðist fyrir um þetta hafði þetta aukist mjög mikið og það er verið að vísa fólki með fleiri og fleiri sjúkdóma á þessa leið, svo sem fólki með alls kyns lífsstílssjúkdóma sem ég nefndi hérna áðan, sykursýki eldra fólks, lungnasjúkdóma vegna reykinga, háan blóðþrýsting og þunglyndi. Þá er verið að vísa á íþróttir. Það er verið að benda á jafnvel stafgöngu, útivist alls konar og sömuleiðis á líkamsræktarstöðvar. Við höfum sundlaugarnar sem eru mjög góður valkostur o.s.frv. Að þessu hafa komið ýmsir aðilar. Stéttarfélög t.d. og fyrirtæki hafa stutt fólk sem hafa viljað fara þessa leið. Íþróttahreyfingin hefur tekið undir þetta og heilbrigðisstarfsmenn einnig.

Í Noregi varð það að lögum að fara þessa leið árið 2003. Þá tóku lög gildi í Noregi um hreyfingu sem valkost í heilbrigðiskerfinu þannig að læknar gætu vísað á hreyfingu ásamt matarleiðbeiningum ef þeir teldu ástæðu til á sama hátt og lyfja- og læknismeðferð. Sú lagabreyting hefur gengið undir heitinu græn ávísun þar. Þeir hafa verið að fikra sig líka áfram eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar, byrjuðu með sjúklinga með hjarta- og æðasjúkdóma og síðan hafa þeir fjölgað sjúkdómaflokkum til að nýta þessa leið.

Nánari útfærsla á þessu kemur fram í greinargerðinni. Ég geri ekki ráð fyrir að ég hafi tíma til að fara alveg yfir það. En vísa á greinargerðina með málinu um þetta. Þar kemur einmitt fram að fyrsta árið sem þetta var í lögum í Noregi voru gefnar út 24.000 grænar ávísanir í Noregi sem ella hefðu annars farið í lyfjaávísanir og útgjöld fyrir heilbrigðiskerfið eða jafnvel aðgerðir.

Svíar byrjuðu á þessu 2001 og hefur það þar gefist mjög vel. Ég átti fund með heilbrigðisráðherrum á Norðurlöndunum nú í vetur þar sem staðfest var hvað þessi leið hefði gefist vel þar.

Eins og ég benti á áðan eru kjöraðstæður til að bjóða upp á þennan valkost hér með allar þessar sundlaugar, íþróttaaðstöðu og líkamsræktarstöðvar þannig að það ætti að vera auðvelt fyrir okkur að fara þessa leið.

Ég lagði þetta til á síðasta þingi ásamt þeim hv. þingmönnum sem ég nefndi áðan og eru flutningsmenn með mér. En þá var málið ekki afgreitt. Nú þegar þingmálið er endurflutt þykir flutningsmönnum ástæða til að vekja athygli á vinnu sem hefur þegar farið fram í að gera hreyfingu að valkosti í heilbrigðisþjónustunni, þ.e. síðan þingmálið kom fram fyrst, en síðastliðinn vetur gerðu nemendur í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun við endurmenntun Háskóla Íslands lokaverkefni um hreyfingu sem meðferð í heilbrigðisþjónustunni. Þau nefndu verkefnið Hreyfiseðill, ávísun á hreyfingu, og lauk því með skýrslu um hvernig unnt væri að koma á tilraunaverkefni á þessu sviði.

Hugmyndir nemendanna gengu út á að hefjast handa hið fyrsta við undirbúning og öflun fjármagns til að setja tilraunaverkefnið af stað hjá fjórum heilsugæslustöðvum, tveimur í dreifbýli og tveimur í þéttbýli. Í viðauka við skýrsluna er áætlun fyrir verkefnið sem sett hefur verið upp fyrir Heilsugæsluna í Garðabæ, en hvaða heilsugæslustöð sem er getur í raun tekið þá áætlun og aðlagað hana að starfsumhverfi sínu. Stutt samantekt höfunda á verkinu er fylgiskjal með þessu þingmáli og geta menn kynnt sér hana þar. Vinnuna sem þeir lögðu fram og liggur að baki þessu verkefni hjá þeim ætti auðveldlega að létta mjög vinnu þá sem við leggjum til að nefnd ráðherra fari í því búið er sem sagt að útbúa þarna tilraunaverkefni í því að gera græna seðla eða hreyfiseðla að valkosti í heilbrigðisþjónustunni hjá þessum heilsugæslustöðvum. Við flutningsmenn þessa máls leggjum því til að nefndin sem við leggjum til að verði sett á laggirnar til að koma þessu í framkvæmd nýti sér skýrsluna við vinnu sína.

Það má líka nefna að fleiri námsmenn í háskólunum eru að vinna að slíku. Í gær talaði ég við tvo nemendur í Háskólanum í Reykjavík sem eru líka að vinna að lokaverkefni um að hreyfing verði valkostur í heilbrigðiskerfinu. Það hefur því orðið mikil vakning hér á landi eins og á Norðurlöndunum um að fara þessa leið í heilbrigðisþjónustu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þetta mál sent til heilbrigðis- og trygginganefndar til frekari umfjöllunar og afgreiðslu.