Landshlutaverkefni í skógrækt

Fimmtudaginn 23. febrúar 2006, kl. 13:57:15 (5420)


132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[13:57]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þuríður Backman veit að Alþingi fer með fjárlagavaldið, það setur fjárlög einu sinni á ári. Þess vegna stendur þetta þannig að menn búa við það. Hér er skýrt tekið fram að landbúnaðarráðherra byggi fjárlögin á ályktun Alþingis. Jú, það kann að vera að það væri fastara í hendi ef samningur væri til staðar, eins og hv. þingmaður minnti á, en sú leið er ekki farin, þetta getur komið inn á vegamál og annað. Ég held að mikill skilningur hafi verið í ríkisstjórninni og hér á Alþingi á því að menn þurfi að standa við þessar áætlanir eins og þær eru settar fram. Það er lengi verið að sá til trésins og mikil vinna sem þar hefur farið fram sem þá fer til einskis sá undirbúningur. Hér hefur því nokkurn veginn verið staðið við ályktanir um skógræktarverkefnin og ég held að skógræktarverkefnin séu tiltölulega sátt við þau fjárframlög sem hér hafa fengist á síðustu árum. Þetta er komið yfir einar 500 milljónir til að skapa þessa auðlind.

Hvað varðar nytjarnar sem hv. þingmaður minntist á er það stórt og annað verkefni sem unnið er að með mörgum aðilum og er auðvitað verkefni sem menn þurfa nú að huga að í ríkum mæli. Ráðuneytið er að gera það, skógræktarbændurnir og verkefnin eru að sinna því og þar hafa ýmsir aðilar mikinn áhuga á að koma að slíku verki. Hið stóra verkefni framtíðarinnar er að huga að grisjun skóganna, huga að úrvinnslunni og það verður auðvitað glæsilegt og hlýtur að vera keppikefli t.d. þeirra sem framleiða húsgögn, parkett og fleira að fara að ná samkomulagi við skógarbændur um að nýta íslenskan við til þess verkefnis, en það er sem sé annað verkefni sem er í fullum gangi.