Landshlutaverkefni í skógrækt

Fimmtudaginn 23. febrúar 2006, kl. 14:20:52 (5428)


132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[14:20]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var afskaplega fræðandi ræða hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur en mér fannst samt sem áður hún kannski ekki skilja málið alveg nógu vel að mínu mati af því að mér finnst skilgreiningarnar varðandi þetta frumvarp koma afskaplega vel fram, um hvað frumvarpið fjallar og eins til hvers við erum að rækta þennan skóg. Að sjálfsögðu þarf að fara varlega og skipulag sveitarfélaga á að segja til um hvaða svæði eiga að vera undir skógrækt og hvaða svæði eiga að vera undir aðra landbúnaðarstarfsemi, t.d. kornrækt o.s.frv.

Þegar talað er um sjálfbæra skógrækt sjáum við að hún verður til t.d. í gömlum birkiskógum sem eru friðaðir. Það er sjálfbært, þeir fara að sá sér sjálfir. Ég er ekki viss um að við séum að tala um sama hlutinn en það er það sem mér datt í hug.

Ég hélt að hv. þingmaður mundi fagna því verulega sem við erum að gera með skógræktinni hvað varðar bindingu kolefnis, sem ég tel vera afskaplega mikilvægt hlutverk. Fyrir það fyrsta er þetta gott búsílag fyrir byggðir landsins, það er mikið byggðamál þegar 760 bújarðir taka þátt í að koma í veg fyrir jarðvegseyðingu oft og tíðum, uppgræðslu og landgræðslu. Þetta verða ekki alls staðar nytjaskógar nema kannski á nokkrum fáum svæðum á landinu. Aðalatriðið eru þessir landgræðsluskógar að mínu mati og binding kolefnis sem ég tel að sé með þýðingarmeiri verkefnum í skógrækt.