Áfengislög

Fimmtudaginn 02. mars 2006, kl. 17:50:25 (5557)


132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Áfengislög.

235. mál
[17:50]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tala hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á áfengislögum, sem er flutt af þingmönnum úr öllum flokkum hér á Alþingi, ásamt mér hv. þingmönnum Þuríði Backman, Björgvini G. Sigurðssyni, Dagnýju Jónsdóttur, Merði Árnasyni og Þórarni E. Sveinssyni.

Við leggjum til breytingu á 20. gr. áfengislaga frá 1998 þar sem kveðið er á um bann við áfengisauglýsingum.

Í 20. gr. áfengislaga segir, með leyfi forseta:

„Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.

Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.

Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.“

Það er á þessari setningu sem óprúttnir aðilar hafa komist fram hjá þessum lögum. Þeir auglýsa sem sé bjór og hafa iðulega agnarsmátt merki í auglýsingunni sem segir að bjórinn sé óáfengur eða að hann sé léttur en svo smátt er merkið yfirleitt að menn sjá það ekki. Að öðru leyti er bjórdósin eins og dós með áfengum bjór. Við þessu viljum við sjá með breytingu sem við leggjum til á lögunum þar sem vísað er í 3. mgr. 20. gr., að við hana bætist setning þannig að í heildina komi hún til með að hljóða á þennan veg, með leyfi forseta:

„Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu eða hætta á ruglingi á milli áfengu framleiðslunnar og þeirrar sem verið er að auglýsa vegna nafns á vörunni, umbúða eða annarra einkenna.“

Þetta er sú breyting sem við leggjum til á áfengislögunum. Þetta er ekki sprottið úr okkar ímyndunarafli eingöngu, flutningsmanna þessa frumvarps, þetta var ábending sem kom meðal annarra ábendinga fram í skýrslu vinnuhóps ríkislögreglustjóra um viðbrögð við áfengisauglýsingum og birt var í nóvembermánuði árið 2001. Þar er vísað í norsk lög sem eru áþekk hvað þetta varðar.

Ég verð að játa að mér finnst lögin eins og þau standa núna vera fullkomlega skýr og það finnst líka ritstjóra Fréttablaðsins, Kára Jónassyni. Það finnst líka auglýsingastjóra ríkissjónvarpsins sem lýsti því yfir í Kastljósi í haust eftir að áfengisauglýsingum í fréttatíma sjónvarpsins var mótmælt. Það var reyndar í þætti þar sem forseti Íslands var að tala um vímuefnaneyslu í landinu og vána sem af vímuefnum stafar að þá hafði sjónvarpið þann smekk að rjúfa útsendinguna með bjórauglýsingum. Þetta varð til þess að margir mótmæltu og auglýsingastjóri eða fulltrúi auglýsingastofu sjónvarpsins sagði á þá leið að í sínum huga væri um áfengisauglýsingu að ræða. Þegar formsatriðin væru hins vegar gaumgæfð væri það vissulega svo að í agnarsmáu letri hefði verið sagt í auglýsingunni að bjórinn væri óáfengur og hann þyrfti að standa skil sinna gerða gagnvart auglýsandanum. Ég spyr á móti. Hvað með áhorfandann, notanda sjónvarpsins? Ég geri þá kröfu á sjónvarpið að það hugsi um hag notandans og ég hefði viljað hafa það þannig að auglýsandinn, sölumaður áfengisins, hefði þurft að sækja sinn rétt gagnvart sjónvarpinu en ekki öfugt, notandinn.

Það er einmitt það sem hefur verið að gerast í seinni tíð að nokkrir aðilar hafa höfðað mál á hendur fjölmiðlum sem hafa birt áfengisauglýsingar og undarlegur dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur ekki alls fyrir löngu þar sem dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að lög hefðu ekki verið brotin. Þótt öllum væri ljóst að svo var bara samkvæmt heilbrigðri skynsemi þá mat sem sagt dómurinn þetta á þessa leið. Þannig hefur það verið að það er notandinn sem þarf að sækja rétt sinn.

Nú geta menn haft mismunandi skoðanir á því hvort það eigi að leyfa auglýsingar á áfengi og geta tekist á um það hvort það sé heppilegt að leyfa auglýsingar. Menn geta farið út í ýmsa þætti þess máls og talað um auglýsingar í erlendum tímaritum sem hingað berast í sjónvarpsútsendingum o.s.frv. Menn geta farið út í þá umræðu og hún á fyllilega rétt á sér þó að í því samhengi vilji ég minna á að baráttan gegn áfengis- og tóbaksauglýsingum er alþjóðleg. Það er alls staðar verið að takast á um þetta og ég vil taka höndum saman með þeim sem eru að reyna að hafa einhverjar hömlur á auglýsingamennsku á þessu tiltekna sviði. Það sem ég vildi sagt hafa: Menn geta haft mismunandi skoðanir á þessu, um hitt tel ég að við eigum að sameinast að þeim lögum sem við setjum í landinu beri að fylgja og það eigi ekki að líðast að menn fari á bak við lögin eins og augljóslega er að gerast í þessu máli. Til að fyrirbyggja að svo verði áfram viljum við stoppa upp í lögin á þann hátt sem hér er lagt til.

Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til menntamálanefndar Alþingis og afgreiðslu eftir vandaða en mjög skjóta umfjöllun þar á bæ.