Strandsiglingar

Föstudaginn 03. mars 2006, kl. 10:44:25 (5571)


132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[10:44]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Guðjón A. Kristjánsson frá Frjálslynda flokknum, Þuríður Backman frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Sigurjón Þórðarson frá Frjálslynda flokknum og Ögmundur Jónasson frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Þessi tillaga hefur verið flutt á tveimur undanförnum þingum og fékk í sjálfu sér mikla umfjöllun í nefnd en af einhverjum ástæðum hefur hún ekki komið til síðari umr. og afgreiðslu þingsins þrátt fyrir að mikill áhugi hafi verið á málinu, sem ég kem að síðar í mínu máli. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að undirbúa að strandsiglingar verði hluti af vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Ráðherra móti stefnu og aðgerðaáætlun og leggi fram lagafrumvörp í þessu skyni, ef með þarf, þannig að ríkið geti tryggt reglulegar strandsiglingar til allra landshluta með því að bjóða út siglingaleiðir. Ráðherra láti meta kostnað við að halda uppi reglulegum strandsiglingum um allt land miðað við skilgreinda þjónustu og geri tillögur um siglingaleiðir sem bjóða á út. Ráðherra skili niðurstöðum til Alþingis eigi síðar en 1. febrúar 2006.“

1. febrúar 2006 er reyndar liðinn. Það skýrist af því að tillagan var lögð fram í upphafi haustþings og kemur ekki á dagskrá þingsins fyrr en nú.

Með þessari tillögu er svofelld greinargerð:

„Tillaga þessi var lögð fram á 131. löggjafarþingi og er nú lögð fram lítið breytt frá þeirri framlagningu. Flestar umsagnir sem borist hafa um tillöguna hafa verið jákvæðar.

Á síðustu árum hafa strandsiglingar smám saman verið að leggjast af hér á landi. Flutningsmenn telja að ekki verði við það unað enda má fullyrða að sjóflutningar meðfram strandlengjunni séu verulega vannýttur samgöngukostur nú. Því leggja þeir til að samgönguráðherra verði falið að undirbúa að strandsiglingar verði hafnar með tilstyrk hins opinbera á grundvelli útboða. Brýnt er að ráðherra grípi strax til aðgerða.

Á 128. löggjafarþingi lagði fyrsti flutningsmaður ásamt fleirum fram tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar. Þar var lagt til að samgönguráðherra yrði falið að skipa nefnd, strandsiglinganefnd, er léti gera úttekt á þjóðhagslegu gildi þess að hér við land væru öflugar strandsiglingar með sérstakri hliðsjón af umhverfis- og byggðaáhrifum, umferðaröryggi og fleiru. Samgöngunefnd lagði til að þeirri tillögu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Í svari við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns til samgönguráðherra á 130. löggjafarþingi um framgang þeirrar tillögu kom fram að ráðherra hefði ekki skipað strandsiglinganefnd en að ráðuneytið hefði í störfum sínum talið eðlilegt að stofnanir þess beindu athygli að strandsiglingum á grundvelli ábendinga og ágætra hugmynda í greinargerð með tillögunni. Ráðherra tók þá fram að hann teldi að tillagan frá 128. löggjafarþingi hefði verið þarft innlegg í umræðuna og að við endurskoðun á samgönguáætlun hlyti að verða litið til ákveðinna þátta sem þar voru nefndir.“

Herra forseti. Því miður reyndust þetta innstæðulaus orð hjá hæstv. ráðherra því að í raun hefur ekkert verið gert af hálfu ráðuneytisins til að koma þessu máli frekar á siglingu, ef svo má að orði kveða. Þrátt fyrir mikinn og eindreginn áhuga og ábendingar fjölmargra aðila í samfélaginu hefur ráðuneytið dregið lappirnar í þessum efnum og kem ég að því síðar hverjar gætu verið líklegar ástæður þess.

„Þess er vert að geta að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur fallist á að aðstoðarkerfi sem Bretar hafi komið á til að færa flutninga af vegum og yfir í siglingar og hóflegur styrkur ríkis til slíkra aðgerða brjóti ekki gegn samkeppnisreglum bandalagsins. Einnig hafa nýlega verið fluttar af því fréttir að Evrópusambandið sjálft hyggist nú stórauka framlög til að efla sjósamgöngur og auka flutninga á sjó, ám og vötnum og öðrum siglingaleiðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun og létta álagi af vegum. Í því sambandi má nefna að hér á landi er talið að ending vega í sumum landshlutum minnki um helming ef þungaflutningar aukast sem svarar því vörumagni sem nú er flutt sjóleiðis.

Flutningsmenn þessar tillögu telja mjög mikilvægt að útboð á siglingaleiðum geti hafist eigi síðar en haustið 2006. Því er hér lagt til að ráðherra skili tillögum sínum sem allra fyrst og eigi síðar en 1. febrúar 2006“ — eins og segir hér en við gætum hæglega samið um að það verði 1. maí 2006.

„Með framangreindri tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar frá 128. löggjafarþingi fylgdi ítarleg greinargerð og vísa flutningsmenn til hennar hvað varðar ýmis rök fyrir mikilvægi þess að strandsiglingar við allt landið verði tryggðar, svo sem hvað varðar umhverfissjónarmið, byggðaáhrif og samkeppnisstöðu sjóflutninga gagnvart landflutningum“ — auk umferðaröryggis, herra forseti, sem ekki hvað síst hefur verið í umræðu nú.

Með þessari tillögu fylgja greinar, bréf og umsagnir um strandsiglingar sem ég leyfi mér að vísa í. Ég ætla að lesa hér úr grein frá Landvernd, frá 3. ágúst 2004, en þar segir, með leyfi forseta:

„Í vikunni sem leið tilkynntu Eimskip að fyrirtækið hygðist leggja niður strandsiglingar við Ísland. Er þetta í beinu framhaldi af þeirri þróun sem hefur átt sér stað í vöruflutningum síðustu ár. Skipum í strandsiglingum hefur fækkað óðum á meðan sífellt hefur bæst í her vöruflutningabifreiða sem þeysa um vegi landsins. Ástæða þessarar þróunar er sögð vera sá flutningshraði sem krafist er í samfélagi okkar.

Umræðan í tengslum við þessa ákvörðun Eimskipa hefur fyrst og fremst beinst að áhrifum hennar á slit vega og aukna hættu í umferðinni. Stórir vöruflutningabílar geta valdið miklu tjóni og alvarlegum slysum lendi þeir í árekstri auk þess sem flutningur hættulegra efna á vegum getur verið varasamur. Vegaslit vörubíla er margfalt á við fólksbíla og svo virðist sem ekki hafi tekist að færa kostnaðinn við vegaslit yfir á vörubíla í samræmi við notkun þeirra.

Landvernd vill vekja athygli á því að neikvæðar afleiðingar vöruflutninga á landi eru ekki eingöngu bundnar við slys og vegaslit. Landflutningar fela í sér allt að sjöfalt meiri losun koldíoxíðs en strandflutningar og hefur losun koldíoxíðs frá landflutningum aukist um 67%.

Það blasir því við að rík ástæða er til að efla strandflutninga hér við land til að draga úr hættu á slysum og sliti vega og til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.“

Ég vek athygli á því, herra forseti, að þetta er tveggja ára gömul yfirlýsing frá Landvernd. Nú er Eimskip ekki lengur til, óskabarn þjóðarinnar, búið er að afhenda það gróðabröskurum og ekkert skip er lengur skráð hér á landi á þeirra vegum að því er ég best veit. En Landvernd leggur einmitt áherslu á umhverfissjónarmið.

Fleiri góðar greinar fylgja þessu nefndaráliti. Ég vil t.d. minna á umfjöllun sem verið hefur hér að undanförnu um álagið á vegunum, um umferðaröryggið og einnig um hagkvæmnina. Evrópusambandið hefur ítrekað lagt fram heimildir fyrir lönd innan Evrópusambandsins til þess að niðurgreiða sjóflutninga. Það leggur mikla áherslu á það af þessum ástæðum. Því leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til að við tökum þetta rækilega upp og látum kanna hagkvæmni þess nú þegar að taka upp strandsiglingar. Það er annars hlálegt í þessum efnum að í samgönguáætlun sem gilda átti frá 2004–2014 og samþykkt var á Alþingi, var lögð rík áhersla á sjóflutninga, strandflutninga, og það væri hluti af stefnu ríkisins að strandflutningar, sjóflutningar, væru einn mikilvægasti þátturinn í flutningakerfi landsins. Því hefur á engan hátt verið fylgt eftir eins og dæmin sanna.

Við vitum að sjávarþorp úti um land byggðu samkeppnisstöðu sína á öflugu strandflutningakerfi. Með því að strandflutningar eru lagðir niður lenda þau úr leið. Þó að viss rök séu fyrir því að hagkvæmara sé að flytja pakkavöru og dagvöru með flutningabílum um landið þá er fjarri því að hægt sé að segja og færa rök fyrir því að það sé nauðsynlegt varðandi fisk, áburð, olíu og annan þungaflutning sem er miklu betur er kominn með sjóflutningum en flutningum á landi.

Herra forseti. Ég ek mikið á þjóðvegum landsins og ég finn hvernig þeir láta undan þessum gríðarlegu þungaflutningum. Þeir ganga í bylgjum þegar maður mætir þessum stóru flutningabílum. Ég er sannfærður um að það væri miklu heilladrýgri stefna að færa þessa flutninga eins og kostur er út á sjó enda er það stefna annarra þjóða þar sem því verður við komið og því skyldum við ekki gera það? Í rauninni hafa flestallir aðilar mælt með því að slíkt verði gert, aðilar sem eiga allt sitt undir þessum flutningum. Því er þessi tillaga flutt í þeirri eindregnu von að hún hljóti brautargengi og að við verðum komin með öflugt strandsiglingakerfi með fram ströndum landsins frá og með næsta hausti.