Yfirlýsing Alcan um lokun álversins í Straumsvík

Mánudaginn 06. mars 2006, kl. 15:05:30 (5634)


132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Yfirlýsing Alcan um lokun álversins í Straumsvík.

[15:05]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Á sl. ári komi hingað til lands einn af forstjórum Alcan og bað um fund með mér og átti með mér afskaplega eðlilegan og hreinskilinn fund. Ég er þannig gerður að ég vil gera mér grein fyrir hlutunum og ég vænti þess að hv. þingmaður sé einnig þannig gerður. Ég var síðan spurður að því hvort ég héldi að gæti komið til greina að ef álverið yrði ekki stækkað, yrði því lokað. Ég sagði að það gæti orðið á næsta áratug eða svo.

Nú vil ég taka það fram að engar slíkar dagsetningar komu fram í þessu samtali og engar hótanir voru settar fram. En það liggur í hlutarins eðli að ef fyrirtæki geta ekki þróast miðað við framtíðarkröfur og breyttar aðstæður þá hefur það áhrif á þau og þannig er það með álver. Þannig er það með álverið í Straumsvík.

Nú má vel vera að hv. þm. Ögmundur Jónasson vilji ekki hafa þessar sjálfsögðu staðreyndir fyrir framan sig þegar hann talar um þessi mál. Hann hefur m.a. sagt frá því að forsætisráðherra hafi verið beittur hótunum. Það er rangt. Og sumir þingmenn hafa verið að hafa það eftir. Hér var um fullkomlega eðlilegt samtal að ræða þar sem ég reyndi að gera mér sem besta grein fyrir staðreyndum og ég er sannfærður um að ef þetta fyrirtæki og önnur fyrirtæki geta ekki þróast með þeim hætti sem aðstæður kalla á þá hefur það þessi áhrif. Það má vel vera að hv. þingmaður vilji ekki hafa þær upplýsingar þegar hann ræðir þetta mál en það er óþarfi af honum að setja þær í þetta samhengi.