Jafn réttur til tónlistarnáms

Miðvikudaginn 08. mars 2006, kl. 12:31:58 (5719)


132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Jafn réttur til tónlistarnáms.

264. mál
[12:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ég og Jón Bjarnason, höfum leyft okkur að beina til hæstv. menntamálaráðherra fyrirspurn um jafnan rétt fólks til tónlistarnáms. Ég vil í upphafi máls míns leyfa mér að vitna til orða Sigurðar Flosasonar tónlistarmanns og aðstoðarskólastjóra Tónlistarskóla FÍH.

Hann segir í Morgunblaðsgrein föstudaginn 17. febrúar, með leyfi forseta:

„Málefni íslenskra tónlistarskóla eru komin í þvílíkt öngþveiti að ég fæ ekki lengur orða bundist. Árangur skólanna lofa allir sem til þekkja og þegar svo ber undir vilja allir Lilju kveðið hafa. Framkoma stjórnmálamanna í garð þessara menntastofnana er hins vegar með öllu óskiljanleg. Reyndar er háttalag þeirra ekki síður slæmt gagnvart nemendum skólanna, aðstandendum þeirra, kennurum skólanna og stjórnendum. Vegna aðgerða stjórnvalda hefur skapast óvissa um ýmsa þætti starfseminnar, óásættanlegt ástand sem getur af sér óöryggi og óánægju allra sem í skólunum starfa. Og til hvers höfum við þá gengið götuna sem dr. Gylfi Þ. Gíslason fyrrverandi menntamálaráðherra ruddi árið 1963? Er það til að upplifa þann glundroða og þá niðurlægingu sem nú blasir við okkur?“ segir Sigurður Flosason í Morgunblaðsgrein, frú forseti.

Nú er það svo að stjórnvöld, hið opinbera, ríki og borg og lítil sveitarfélög hafa deilt um kostnaðarskiptingu í nokkurn tíma. Enn eru í fullu gildi lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla og samkvæmt þeim kemur skýrt fram að menntamálaráðherra ber ábyrgð á hinum faglega þætti tónlistarskólanna, þ.e. viðurkenningu nýrra tónlistarskóla og gerð samræmdrar námskrár fyrir tónlistarfræðslu á öllum skólastigum. Hins vegar hafa, eins og ég sagði áðan, verið deildar meiningar varðandi kostnaðarskiptingu þessa náms og síðan vorið 2003 fór Samband íslenskra sveitarfélaga formlega fram á það við hæstv. menntamálaráðherra að kostnaðarskipting á fyrirkomulagi tónlistarkennslu yrði endurskoðuð, sérstaklega þó á framhaldsskólastigi. Samkvæmt svörum sem ég fékk frá fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, herra Tómasi Inga Olrich, í október 2003, var stofnuð nefnd í júní það ár sem í voru fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins og í umboði þeirrar nefndar kom það fram að henni væri ætlað að fjalla um kostnaðarskiptinguna og fyrirkomulag tónlistarkennslu á framhaldsskólastigi. Nú skilst mér að það sé komið samkomulag um þá skiptingu sem lýtur þó eingöngu að þreyttum einingum til stúdentsprófs og þykir mér það nokkurt umhugsunarefni.

Svo hefur verið starfandi nefnd um endurskoðun laga um þennan fjárhagslega stuðning síðan vorið 2004 eftir því sem ég best veit. Þar hefur allt staðið fast og nú stefnir í það óefni sem Sigurður Flosason lýsir. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að við þessir þingmenn höfum beint fyrirliggjandi spurningu um jafnrétti fólks til tónlistarnáms til hæstv. menntamálaráðherra.