Jafn réttur til tónlistarnáms

Miðvikudaginn 08. mars 2006, kl. 12:46:19 (5725)


132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Jafn réttur til tónlistarnáms.

264. mál
[12:46]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er hreint út sagt hjákátlegt að hlusta á þetta glundroðatal þegar hv. þingmaður er einmitt fulltrúi þess flokks sem skapaði þennan glundroða með því að segja einhliða upp ábyrgð sinni, eins og fulltrúar Reykjavíkurborgar gerðu gagnvart tónlistarnemum í landinu. Það er fyrst og fremst Reykjavíkurborg með Samfylkinguna í broddi fylkingar sem leiddi til þess glundroða sem nú ríkir meðal tónlistarnema. Það er algerlega óásættanlegt hvernig þetta ástand er. Það verður bara að segjast eins og er. Ríkið ber ekki þá ábyrgð. Ég fór vel yfir hvert hlutverk ríkisins er. Hins vegar hef ég engu að síður beitt mér fyrir því að reyna að leysa þetta mál. Það þarf að gera það. Þess vegna sagði ég hér áðan að við þurfum að skoða skólakerfið heildstætt.

Við þurfum að segja: Grunnskólinn er á forræði sveitarfélaga og framhaldsskólinn á forræði ríkisins. En ég hef líka rætt það sérstaklega, og hvet þá hv. þingmenn sem eru fulltrúar þeirra flokka sem koma að sveitarstjórnum hér á landi, að við förum sérstaklega yfir hvort æskilegt sé að sveitarfélögin beri ábyrgð og grunn- og miðstigi og ríkisvaldið beri síðan ábyrgð á framhaldsstiginu. Það þýðir að sjálfsögðu töluverðan kostnað af hendi ríkisins sem ætti að vera hægt að millifæra í kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það verður bara að leysast. Að mínu mati er þetta tæknilegt atriði.

En ég vil sérstaklega undirstrika að ég hef beitt mér fyrir því að fundin verði lausn á þessu máli. Ástandið í dag er óásættanlegt og það ástand er fyrst og fremst tilkomið vegna ábyrgðarleysis, stefnuleysis Samfylkingarinnar í tónlistarmálum hér í borginni. Ákvörðun sem sprengdi upp þetta annars ágæta ástand sem var á tónlistarmálum. En gott og vel. Við verðum bara að bíta í það súra epli og horfa á aðstæðurnar eins og þær eru í dag og reyna að leysa þær fyrir hönd tónlistarnema í landinu.