Áhrif veiða á erfðagerð þorsksins

Miðvikudaginn 08. mars 2006, kl. 14:10:58 (5759)


132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Áhrif veiða á erfðagerð þorsksins.

184. mál
[14:10]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér hafa menn talað töluvert um netaveiðarnar í því samhengi að þar hafi verið tekið eitthvað á málum. Nú hefur dregið verulega mikið úr netaveiðum við landið þannig að áhrifin af því að nota aðra möskvastærð í netaveiðum eru minni en þau hafa verið áður. Við vitum líka af því að mat á því á hvaða veiðislóðum fiskiskipin eru hefur verið mjög glöggt á undanförnum árum og stóru útgerðarfyrirtækin og kannski þau smærri líka hafa sent stóru fiskiskipin norðaustur af landinu til að hirða upp stærsta fiskinn þar þannig að það er ekki lát á sókn í stærsta fiskinn við landið þó svo menn hafi loksins komið auga á að breyta ætti möskvastærðinni. En það hafði verið talað um það á bryggjunum í tíu ár áður en það rann upp fyrir mönnum í stjórnkerfinu að það yrði að gera eitthvað í málunum. Ég ætla að vona að hæstv. sjávarútvegsráðherra láti náttúruna njóta vafans og bíði ekki endalaust eftir rannsóknum heldur reyni að gera eitthvað í málunum sem allra fyrst.