Starfsemi og hæfi stjórnenda Kauphallarinnar

Miðvikudaginn 08. mars 2006, kl. 15:43:44 (5799)


132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Starfsemi og hæfi stjórnenda Kauphallarinnar.

552. mál
[15:43]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa furðu á þessari afstöðu hæstv. ráðherra og að hæstv. ráðherra skuli ekki sjá þá hagsmunaárekstra sem hér geta verið, að í stjórn Kauphallarinnar skuli sitja stjórnendur stórra fjármálastofnana, sem skráð eru í Kauphöllinni, og lífeyrissjóða. Það er alveg ljóst að þarna hljóta að verða hagsmunaárekstrar og er mjög óeðlilegt að t.d. sömu stjórnarmenn sitji í stjórn Kauphallar og einnig í Verðbréfaskráningu.

Finnst hæstv. ráðherra þetta eðlilegt og telur hæstv. ráðherra ekki eðlilegt að skilja þar á milli því ekki er hægt að horfa fram hjá því að núverandi eignar-, stjórnunar- og rekstrartengsl eru afar óeðlilegt. Það hefur komið fram opinberlega án þess að ráðherra hafi talið ástæðu til að taka á þessu máli.

Samkvæmt tilskipun í reglugerð Evrópusambandsins verður sú krafa sett fram til aðildarríkjanna að hin lögbæru yfirvöld innan þeirra séu stjórnvöld og njóta þau algers sjálfstæðis gagnvart aðilum markaðarins til að forðast megi hagsmunaárekstra. Ætlar hæstv. ráðherra ekki að fara að þessari tilskipun? Ég spyr líka: Telur ráðherra virkilega að hægt sé að framselja valdheimildir stjórna hlutafélaga yfir til forstjóra? Ég vil vitna til þess að Áslaug Björgvinsdóttir, dósent í félagsfræði, hefur í grein í Morgunblaðinu einmitt haldið því fram að í ljósi ófrávíkjanlegra reglna laga um valdsvið félagsstjórna og framkvæmdastjóra í hlutafélögum svo og ráðningarsambands forstjóra Kauphallar við stjórnina og boðvalds hennar yfir forstjóra sé mjög vafasamt að þetta standist lög.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hafi skoðað þetta alvarlega? Þarna eru á ferðinni hreinir hagsmunaárekstrar og mjög óeðlilegt að þetta fyrirkomulag sé til staðar með þeim hætti sem það er. Ég vísa aftur til dönsku og norsku kauphallanna þar sem ekki eru í stjórn aðilar (Forseti hringir.) sem eru í stjórnum fyrirtækja sem aðild eiga að Kauphöllinni.