Norrænt samstarf 2005

Fimmtudaginn 09. mars 2006, kl. 14:54:06 (5863)


132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norrænt samstarf 2005.

574. mál
[14:54]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa ágætu yfirferð þó stutt væri. En það er rétt hjá hv. þingmanni að ég er nýorðin varamaður í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. En ég hef ekki fengið það tækifæri að fara á fundi Norðurlandaráðs enn þá svo ég hef ekki getað kynnt mér þetta af eigin raun. Mér finnst áhugavert að velta því fyrir sér hvaða áhrif svona tilmæli hafa sem send eru frá Norðurlandaráði til ríkisstjórna landanna sem þar eiga aðild. Það hlýtur að vera einhver skörun við starfið sem á sér stað innan Evrópusambandsins og það er áhugavert að fá upplýsingar um slíkt.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz sagði í ræðu sinni hér áðan að út af samstarfinu við Evrópu væri Norðurlandaráð orðið ágætur samráðsvettvangur Norðurlandanna í málefnum sem snúa að Evrópusambandinu. Því hlýt ég að fá að velta því hér upp við hv. þingmann og biðja hana um að gefa mér einhverja mynd af því, þó að hún hafi stuttan tíma til þess í andsvari, hvort ekki sé hætt við því, og bið hana um að vera algjörlega heiðarlega með það, að við séum einstaka sinnum utanveltu í Norðurlandaráði. Og þá hversu mikil vigt sé í því og hversu mikið samstarf þessar þrjár þjóðir hafi umfram kannski þetta klassíska Norðurlandaráðssamstarf, þessar þrjár þjóðir sem eru í Evrópusambandinu, og hvort hv. þingmaður finni fyrir því í störfum sínum innan Norðurlandaráðs.