Norrænt samstarf 2005

Fimmtudaginn 09. mars 2006, kl. 15:22:18 (5868)


132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norrænt samstarf 2005.

574. mál
[15:22]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2005. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz fyrir góða og yfirgripsmikla ræðu um þetta samstarf. Það skal aldrei ofmetið hversu mikilvægt Íslendingum Norðurlandasamstarf er. Við sem lítil þjóð erum þarna fullgildir þátttakendur. Vonandi verður hægt að efla þetta samstarf frekar en hitt. En því miður hefur tilhneigingin verið sú á síðustu árum að talað er um að þetta sé það kostnaðarsamt, mikið og flókið batterí að frekar ætti að draga úr samstarfinu. En við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum einmitt lagt áherslu á að Norðurlandasamstarfið sé mjög af hinu góða og það beri að efla frekar en hitt.

Í skýrslunni er sagt frá störfum menningar- og menntamálanefndar, ég ætla aðeins að fara yfir það. Því miður átti Ísland ekki fulltrúa í þeim hópi. Menningar- og menntamálanefnd annast málefni sem varða menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannaskipti. Þetta er sem sagt yfirgripsmikill hópur og stórt svið og leitt að Íslendingar hafi ekki átt fulltrúa í nefndinni.

Málefni nefndarinnar voru m.a. á síðasta ári þau er varða fjárhættuspil, happdrætti og spilafíkn. Það hefði verið gott að hafa t.d. hv. þm. Ögmund Jónasson í þeirri nefnd því þetta eru einmitt málefni sem hann hefur lagt mikla áherslu á hér í þinginu.

Verðlauna Norðurlandaráðs er sérstaklega getið í 4. kafla skýrslunnar. Nú sem stendur eru verðlaun Norðurlandaráðs fern. Það eru bókmenntaverðlaunin, tónlistarverðlaunin, náttúru- og umhverfisverðlaun. Það eru um tíu ár síðan farið var að veita þau verðlaun fyrst. Það var einmitt samþykkt á Norðurlandaráðsþingi á Íslandi 1995 að efna til þessara verðlauna. Og nýjustu verðlaunin eru kvikmyndaverðlaunin sem voru fyrst veitt held ég árið 2002.

Bókmenntaverðlaunin eru elst þessara verðlauna og var fyrst úthlutað 1962. Það var náttúrlega sérstaklega ánægjulegt að á síðasta ári var það einmitt Sjón sem hlaut þessi verðlaun. Ég ætla aðeins að lesa upp úr skýrslunni, með leyfi forseta, þar sem textinn er svo fallegur þar sem sagt er frá þessum verðlaunum.

„Sjón (Sigurjón Birgir Sigurðsson) hlaut verðlaunin árið 2005 fyrir Skugga-Baldur en verkið er rómantísk skáldsaga sem gerist á Íslandi um miðja 19. öld. Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að í Skugga-Baldri þræði Sjón einstigið milli ljóðs og prósa. Í skáldsögunni séu ofin saman minni úr íslenskum þjóðsögum, rómantísk frásögn og heillandi saga þar sem siðfræðilegar spurningar nútímans skjóti upp kollinum.“

Við höfum öll tekið eftir því hversu mikla athygli þessi bókmenntaverðlaun hafa vakið, og vakið jafnframt verðskuldaða athygli á skáldinu Sjón. Nú verða bækur hans gefnar út annars staðar á Norðurlöndunum. Útgefendur keppast þar um að fá að gefa út bókina. Ég hef tekið eftir því að Skugga-Baldur hefur verið ofarlega á metsölulistum á Íslandi og má þakka það fyrrgreindum verðlaunum að verulegu leyti.

Hins vegar hefur líka verið fjallað um að þeir sem eru tilnefndir til verðlaunanna á Norðurlöndunum mættu kannski fá meiri umfjöllun á Íslandi. Að vísu hefur Jórunn Sigurðardóttir hjá Ríkisútvarpinu, á Rás 1, gert hinum rithöfundunum nokkuð góð skil. En talað hefur verið um að annars staðar á Norðurlöndunum sé umfjöllunin um þessa rithöfunda mun meiri og ítarlegri. Þetta er eitthvað sem íslenskir fjölmiðlar gætu tekið upp hjá sjálfum sér að fjalla betur um bókmenntir hinna Norðurlandanna, þessar afbragðs bókmenntir. Ég er viss um að það mundi vekja meiri athygli á þessum sameiginlega arfi okkar, bókmenntaarfinum.

Ég minntist aðeins áðan á hin árlegu náttúru- og umhverfisverðlaun og var sérstaklega ánægjulegt að það var norski líffræðingurinn Ann-Cecilie Norderhaug sem hlaut verðlaunin á síðasta ári fyrir framlag sitt til verndunar menningarlandslags á Norðurlöndum. Verðlaunin eru alltaf veitt einstaklingi sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum, eða hópi fólks, samtökum, jafnvel fjölmiðlum og fyrirtækjum sem hafa í störfum sínum tekist að sýna náttúrunni tillitssemi.

Maður getur velt fyrir sér tilgangi svona verðlauna. Þau eru auðvitað viðurkenning fyrir þá sem hljóta þau en ekki síður vekja þau athygli fjölmiðla og íbúa á Norðurlöndunum á þeim hlutum, fá oftast heilmikla fjölmiðlaathygli. Það er mjög af hinu góða. Það er sérstaklega ánægjulegt að þessi verðlaun Norðurlandaráðs eru ekki bara blómvöndur og nafnið eitt heldur eru þau mjög vegleg. Þau nema 350.000 dönskum krónum sem kemur sér heldur betur vel fyrir þá sem þau hljóta og athyglin sem þessi verðlaun vekja geta verið margföld á við þá upphæð.

Norðurlandasamstarfið er með ýmsu sniði. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að taka þátt í Norðurlandasamstarfi strax á unga aldri þegar ég fór á vegum Nordjobb til Danmerkur í sumarvinnu. Það var mér ómetanleg lífsreynsla. Maður lærði tungumálið aðeins betur. Ég gat notað skóladönskuna mína og hef eiginlega búið að því síðan að geta talað þokkalega dönsku. Þegar maður getur bjargað sér á dönsku getur maður reyndar einnig bjargað sér ágætlega á sænsku og norsku. Finnskan er hins vegar aðeins erfiðari. Þetta varð m.a. til þess að ég fór sem gestanemi til Noregs og gat þar fylgst nokkuð vel með námsefninu á norsku.

Nú er sem betur fer verið að efla þetta á ýmsum sviðum. Ég veit að heilu bekkirnir úr grunnskólum á Akureyri fara og heimsækja grunnskóla í Skandinavíu. Síðan er það endurgoldið með heimsóknum aftur til Akureyrar. Skrifstofa þessa menningarsamstarfs á Norðurlöndunum er einmitt á Akureyri. Það er mjög virkt og skemmtilegt að fylgjast með því hve mikill áhugi er á þessu samstarfi, sérstaklega meðal grunnskólanema. Ég held að það skipti okkur sérstaklega miklu máli að halda við slíkum tengslum Norðurlanda.

Við vitum að ensk áhrif eru mikil, ekki síst á tungumálið okkar. Hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa ekki farið varhluta af því. Danir sletta manna mest á ensku af Norðurlandaþjóðunum. En einmitt í því tilliti er mjög mikilvægt að halda uppi góðu samstarfi milli Norðurlandanna. Það dugir ekki bara að lesa og læra dönskuna í bókum heldur skipta þessi beinu tengsl, að nota tungumálið í reynd, miklu meira máli. Það situr fastar í fólki. Í daglegu lífi heyrum við meira af ensku og amerísku en öðrum Norðurlandatungumálum. Þess vegna er þetta afar mikilvægt.

Samstarf á sviði leiklistar hefur verið þó nokkuð við aðrar Norðurlandaþjóðir. Ég þekki það frá heimabæ mínum Akureyri, að þar hefur leikklúbburinn Saga, sem er reyndar elsti starfandi unglingaleikklúbbur í landinu, haft mjög mikið samstarf við hinar Norðurlandaþjóðirnar í um 15 ár og farið reglulega í ferðir. Þar hefur verið samstarf við allar hinar þjóðirnar. Þetta er ekki bara heimsókn í annað land til að setja upp leikrit heldur hafa ungmenni frá þessum löndum hist og jafnvel búið til leikverk saman. Þemað er þessi innbyrðis tengsl, skyldleiki tungumálanna og efling þeirra. Ég man eftir því að stundum var talað um að þegar allir þyrftu að tala saman væri það gert á ensku. Því var auðvitað kippt í liðinn. Ákveðið var að nú skyldu allir tala einhvers konar blöndu af skandinavísku. Ef Svíar tala nógu hægt og rólega þá skilja Danir og Norðmenn þá ágætlega. Margir Finnar skilja líka sænskuna. Við skiljum Færeyinga og Færeyingar skilja okkur og þannig á þetta í raun ekki að vera flókið.

Hins vegar hefur það verið einhvers konar tíska að tala ensku eða að menn haldi að þeir mætist á jafnréttisgrundvelli. En auðvitað á það að vera metnaðarmál allra að reyna að tala skandinavísku svo hana megi efla og sameiginlegar rætur okkar fái að vaxa og dafna.

Síðasta haust var haldið Norðurlandaráðsþing í Reykjavík, dagana 21. til 27. október. Í skýrslunni segir frá því að forseti Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, hafi sett þingið, boðið þátttakendur velkomna til Íslands og hún minnst á kvennaverkfallið, sem fór einmitt fram daginn áður til að fagna 30 ára afmælis kvennafrídagsins mikla árið 1975. Hún sagðist vona að sem flestir þingfulltrúar hefðu orði vitni að þessari samstöðu kvenna, og reyndar karla. Auðvitað tóku líka margir karlar þátt í verkfallinu.

Svo að ég vitni í þessa skýrslu þá sagði forseti Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, að verkfallið hefði verið þörf áminning um að enn væri margt óunnið í jafnréttismálum hér á Norðurlöndum. Forsetinn lagði enn fremur áherslu á að litið væri á norrænt samstarf sem einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu og að þrátt fyrir ýmsar breytingar á skipulagi og inntaki samstarfsins undanfarin ár væri sú skoðun óbreytt. Mig langar í lokin að fagna þessum ummælum sérstaklega.