NATO-þingið 2005

Fimmtudaginn 09. mars 2006, kl. 19:44:09 (5896)


132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

NATO-þingið 2005.

585. mál
[19:44]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2005. Ég hef setið skamma stund í þessari nefnd en vil segja það strax í upphafi, ekki síst með tilliti til umræðna sem urðu hér fyrr í morgun um afskipti mín af Atlantshafsbandalaginu af hálfu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að ég hygg að það sé engin nefnd sem ég hef komið að sem starfar á alþjóðlega vísu fyrir þingið þar sem hefur verið jafnfróðlegt að starfa og einmitt þarna.

Segja má að starfsemi NATO-þingsins hafi markast af því á síðasta ári að upp kom krytur og erfiðleikar í samstarfi Atlantshafsbandalagsþjóðanna í kjölfar Íraksstríðsins. Um þann meiningarmun hafa staðið töluverðar umræður, á köflum harkalegar, á þeim þingum sem við fulltrúarnir höfum verið á. Sömuleiðis hefur starfið líka markast af því að hlutverk Atlantshafsbandalagsins hefur verið að breytast og það má segja að það svið viðfangsefna sem það sinnir hafi breyst og það hefur haslað sér völl í verkefnum víða utan hefðbundins athafnasvæðis bandalagsins.

Við höfum, fulltrúar Íslendinga á þinginu, sótt alla þá fundi sem haldnir hafa verið á vegum NATO-þingsins á þessu ári og tekið virkan þátt í umræðum þar. Ég er viss um að það er forvitnilegt fyrir hv. þm. Ögmund Jónasson að vita það og heyra frá mínum munni að ég hef sennilega hvergi á mínum ferli, þ.e. í starfi á alþjóðlega vísu fyrir Alþingi Íslendinga, tekið þátt í jafnhreinskilnum og opinskáum umræðum og einmitt innan ýmissa stofnana NATO-þingsins.

Til að mynda er á hverju ári haldið í Washington svokallað Transatlantic Forum þar sem koma fulltrúar hinna ýmsu deilda sem að þinginu standa og eiga þess kost að eiga skoðanaskipti við ýmsa þá sem eru að móta stefnuna af hálfu Atlantshafsbandalagsins. Ég get þess sérstaklega að þegar ég var staddur á þeim fundi í Washington í desember síðastliðnum þá spurði ég nokkuð harðra og nærgöngulla spurninga um afstöðu Bandaríkjamanna til ýmissa þátta. Ég t.d. rifja það hér upp að ég innti sérstaklega eftir því hver yrðu viðbrögð Bandaríkjamanna ef Íranar héldu áfram að þráast við að fara að tilmælum Alþjóðakjarnorkueftirlitsstofnunarinnar. Ég spurði út í hvort það kæmi til greina að Bandaríkjamenn gripu til hernaðarlegra viðbragða. Það var ákaflega merkilegt að fulltrúi beint úr miðju stjórnkerfisins, frá sjálfu Pentagon, sem varð fyrir svörum sagði það alveg skýrt og skorinort að það væri viðbragð sem þeir mundu ekki afskrifa.

Ég átti þess jafnframt kost að varpa fram spurningum í kjölfar hádegisverðarfundar með manni sem nýlega hafði þá látið af störfum sem yfirmaður herforingjaráðs Bandaríkjastjórnar og ég spurði hann sömu spurningar. Það var athyglisvert að sá fyrrverandi yfirmaður Bandaríkjahers sagði alveg skýrt og skorinort að þó að hernaðarleg íhlutun í málefni Írana væru ekki ofarlega á dagskrá væri hún eitt af þeim meðulum sem menn íhuguðu.

Ég nefni þetta sérstaklega hér til að undirstrika það að innan vébanda þingsins eiga fulltrúar kost á að fá upplýsingar frá fyrstu hendi og spyrja harðra spurninga og fá svör sem a.m.k. vöktu undrun mína fyrir hreinskilni þeirra.

Ég er t.d. viss um að það hefði verið nokkurt nýnæmi fyrir hv. þm. Ögmund Jónasson að eiga þess kost að varpa fram svipuðum spurningum og ég gerði til fulltrúa bandarískra stjórnvalda í Washington. Ég spurði þá t.d. um möguleikana á að þeir töpuðu stríðinu í Írak og það kom alveg skýrt fram af hálfu þeirra að þeir töldu að á því væru möguleikar. Svipuð viðhorf hafði ég ekki heyrt af vörum fulltrúa ýmissa annarra, viljugra þjóða. Ég á þá við, frú forseti, íslensku ríkisstjórnina.

En það sem er fróðlegt við þessi þing er að þarna eiga ákaflega víðfeðm sjónarmið fulltrúa. Þarna eiga t.d. flestöll ríki sem á sínum tíma voru talin til áhrifasvæðis hinna föllnu Sovétríkja fulltrúa. Þarna sitja Rússar. Ég átti þess sérstakan kost, af því ég er formaður Íslandsdeildarinnar, að sitja fund formanna deilda úr hinum ýmsu þjóðþingum, sem haldinn var í aðdraganda síðasta ársfundar í Kaupmannahöfn, með Rússum sérstaklega til að ræða ýmis ágreiningsmál þar. Það voru töluvert hreinskilnar umræður. Þar var m.a. reifuð sú staðreynd að mörgum sem fylgjast með tengslum Rússa og Bandaríkjamanna á alþjóðlega vísu finnst eins og heldur sé hlaupin stirfni og kuldi í þau samskipti. Það var hart deilt á Rússa sem svöruðu fullum hálsi og bentu á að það væri fullkomlega eðlilegt af þeirra hálfu að rísa aðeins upp á tærnar þegar horft væri til þeirrar staðreyndar að Bandaríkjamenn séu núna, þrátt fyrir þá stefnu sem við Íslendingar finnum á eigin skinni, að draga úr herstöðvum víðs vegar um heiminn, að setja niður herstöðvar í ýmsum af hinum gömlu gervihnöttum Sovétríkjanna, þ.e. nálægt landamærum Rússlands. Þetta, sögðu Rússar, er ástæðan fyrir því að það hefur svona heldur brostið á með frera í stað þess funa sem ríkti á tímum perestrojku um nokkurt skeið í samskiptum risaveldanna tveggja.

Það var ákaflega fróðlegt að fylgjast með þessum skoðanaskiptum á millum fulltrúa stórveldanna tveggja og verða þess áskynja hvað menn voru hreinskilnir. Þarna ræddu menn það alveg hreint út að í sumum héruðum lýðveldanna sem eru á Kákasussvæðinu, og áður tengdust Rússum með formlegum hætti í gegnum Sovétríkin, hafa t.d. Bandaríkjamenn verið að styðja ýmiss konar aðskilnaðarhreyfingar, eins og t.d. í Abkasíu þaðan sem Stalín fékk sín góðu vín, svo ég rifji það nú upp fyrir hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem, eins og ég, er áhugamaður um sögu og þar með líka um smekk hinna fornu ráðamanna í Sovétríkjunum.

Þetta hefur auðvitað verið þyrnir í augum ýmissa sem vildu gjarnan sjá hlutina með öðrum hætti. En slík smáatriði sem koma fram — smáatriði segi ég, frú forseti, og ætti auðvitað að draga þá athugasemd til baka því auðvitað eru þetta ekki smáatriði fyrir þá sem á þessum svæðum búa — eru partur af veruleika sem við sjáum ekki oft í fjölmiðlum okkar hér heima. Við gerum okkur ekki grein fyrir því hvað það er sem veldur því að stórveldi ýfast við og reisa hár sitt á feldunum og jafnvel stinga við fótunum stundum. Það er vegna þess að þó allt virðist með felldu ríkir samt undarleg togstreita oft og tíðum á milli þeirra þar sem annað stórveldanna reynir með einhverjum hætti að tryggja stöðu sína og hitt svarar með því að gera slíkt hið sama annars staðar.

Á því ári sem liðið er hefur það gerst í sögu þessarar nefndar, að á einu ári voru þrír formenn kjörnir. Árið byrjaði með því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson var kjörinn formaður nefndarinnar en þegar leið á árið var kjörinn nýr formaður. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lét af því starfi og núverandi sendiherra okkar í Stokkhólmi tók við því og á síðastliðnu hausti var ég síðan kjörinn formaður nefndarinnar. Samvinna innan nefndarinnar hefur auðvitað verið með miklum ágætum og sannarlega má vona að sá friður sem ríkir innan nefndarinnar smiti nokkuð út til þeirra svæða sem Atlantshafsbandalagið, eða a.m.k. þingmannasamkunda þess, lætur til sín taka með einhverjum hætti.

Aðeins í lokin, frú forseti, fyrir utan það að ég er í nefndinni ásamt hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, varaformanni, þá er hv. þm. Magnús Stefánsson einnig í nefndinni.

Þingmannasamkundan er dálítið sérkennileg að því leyti til að þegar sambandið var stofnað, Atlantshafsbandalagið, 1949, þá var það ekki partur af neinni formlegri stofnun. Það var ekki fyrr en 1954 sem þingmannasamkundan var sett á stofn. Hún var upphaflega til að samræma viðhorf og ræða það sem var á döfinni hjá bandalaginu sjálfu. Á seinni árum er hún fyrst og fremst vettvangur skoðanaskipta og í vaxandi mæli hafa alls konar viðhorf komið þar fram og fulltrúar margvíslegra viðhorfa átt það sæti. Ég hef þegar nefnt þau ríki sem voru áður á áhrifasvæði hinna gömlu Sovétríkja. Rússar láta þarna töluvert til sín taka. Á síðustu árum hafa líka löndin við Miðjarðarhaf í vaxandi mæli sótt í að komast inn á þetta þing og eiga þar fulltrúa sína. Það hefur góðfúslega verið heimilað. Þannig að núna eiga þarna ýmis Norður-Afríkuríki fulltrúa sem tjá mjög merkileg viðhorf, ekki síst á þessum síðustu tímum og kannski verstu þegar segja má að komnir séu upp á yfirborðið ákveðnir árekstrar á milli mismunandi trúarviðhorfa í heiminum. Það er mjög fróðlegt að vera viðstaddur slíkar umræður.

Frú forseti. Í lokin vil ég geta þess að auk mín skrifa þeir hv. þingmenn Einar Oddur Kristjánsson og Magnús Stefánsson undir þessa skýrslu.