Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga

Föstudaginn 10. mars 2006, kl. 10:04:25 (5909)


132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[10:04]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það sem við horfum á og erum búin að horfa á undanfarna daga er að blygðunarlaust hefur stjórnarandstaðan beitt skipulegu málþófi til að hindra að meirihlutavilji Alþingis nái fram að ganga. Það er ekkert nýtt að stjórnarandstaðan sé ósammála stjórnarmeirihlutanum og ég vek athygli á því að stjórnarandstaðan hefur fullan rétt á því að hafa rangt fyrir sér og ég er alveg til í að leggja mikið á mig til að verja þann rétt. En það er algerlega fráleitt og samræmist engum lýðræðishugmyndum að menn geri hvað þeir geti við að beita hreinlega ofbeldi til að koma í veg fyrir að mál sem þeir eru ósammála og eru í minni hluta með komist í gegn. Það er nákvæmlega það sem hér hefur verið á ferðinni. Þetta snýst ekkert um efni máls. Allt hefur komið fram í umræðunni sem þarf að koma fram en áfram er haldið og menn hafa ekki farið dult með það að þeir ætla að stoppa þetta með því að vera með skipulagt málþóf.

Virðulegi forseti. Ég spyr: Hvar í þeim lýðræðisríkjum sem við berum okkur saman við sem er það látið viðgangast að minni hlutinn geti hreinlega kúgað meiri hlutann eins og menn eru að reyna að gera? Þetta er fyrir neðan allar hellur og ég hvet stjórnarandstöðuna til að hugsa málið til enda í stærra samhengi því hér er um að ræða hvort lýðræðislegur vilji nái fram að ganga eða ekki. Þetta snýst ekki um efni máls. Þetta snýst um það hvort lýðræðislegur vilji eigi að ná fram að ganga eða ekki.