Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga

Föstudaginn 10. mars 2006, kl. 10:08:58 (5911)


132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[10:08]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé engin ástæða til að fresta umræðunni. Ég met innleggið sem fram kom hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem trikk til að drepa málinu á dreif, tefja það og helst drepa.

Umræðan um málið hefur staðið lengi og hæstv. forseti hefur lagt sig mjög fram um að ná samkomulagi um umræðuna og hvernig á að ljúka henni. Hins vegar hafa ekki komið nein viðbrögð við því frá stjórnarandstöðunni og mér þykir það mjög miður. Mönnum liggur mikið á hjarta og ég held að það sé fullkomlega eðlilegt að forseti setji á þingfund í dag til að gefa mönnum kost á að ræða málið. Ég sé að einstakir hv. þingmenn eru komnir með heilu bókasöfnin á borð sín þannig að það er mikið fram undan í umræðunni og forseti er af alúð sinni að gefa þeim hv. þingmönnum kost á að flytja mál sitt.

Ég lít svo á að um skipulagt málþóf sé að ræða, það liggur fyrir. Ég held því að rétt sé að halda þingfund í dag og halda áfram umræðunni og ég sé enga ástæðu til að verða við óskum sem hér hafa komið fram um að fresta málinu.

Ég vil hins vegar leyfa mér það, virðulegi forseti, að hvetja hv. stjórnarandstöðu til þess að koma til móts við forseta og svara tilboðum hans um samkomulag um umræðuna. Ég held að það sé sá bragur á þinghaldinu sem við þurfum, ekki þann hornaskap sem birst hefur í dag.