Frumvarp um vatnatilskipun ESB

Föstudaginn 10. mars 2006, kl. 11:16:35 (5938)


132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:16]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Starfandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, vísaði í ræðu sinni áðan til starfa hinum megin við Vonarstrætið í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar gegndi ég sem kunnugt er forsetaembætti um nokkurra ára skeið þegar hann var borgarfulltrúi. Það er mér bæði ánægja og ekki nema sjálfsagt að staðfesta það hér að á þeim vettvangi talaði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson bæði stutt og sjaldan. Ef einhver ber það upp á hv. þingmann að hann hafi neytt allra þeirra heimilda sem hann hafði þeim megin götunnar til að varna því að augljós mistök ráðamanna í Reykjavíkurborg næðu fram að ganga, þá mundi ég segja að sá maður færi með rangt mál.

Undir þann anda sem hér hefur verið í ræðum stjórnarliða má um margt taka. Það fer best á því að stjórnarandstæðingar séu bæði fáorðir og geðlitlir. (Gripið fram í.) Þannig mun auðvitað ganga best og skilvirkast að afgreiða stjórnarfrumvörp án þess að á þeim þurfi að verða neinar breytingar í meðförum þingsins.

Ég vil þvert á það sem ýmsir aðrir hafa haft hér til mála að leggja þakka hæstv. forseta sérstaklega fyrir að efna til þessa fundar í dag, vegna þess að þannig háttar um mína hagi að ég þarf að vera í leyfi frá störfum þingsins frá mánudegi til fimmtudags, þó maður eigi kannski ekki að segja frá því opinberlega, eins og menn hafa orðið varir við undanfarið. Þess vegna leit út fyrir að mér gæfist ekki færi á því að halda ræðu í málinu undir 2. umr. En ég fæ sem sagt tækifæri til þess að gera það í dag og þakka hæstv. forseta fyrir.

Ég geri hins vegar athugasemd við þann skilning að hér hafi ríkt friður í nefnd um afgreiðslu máls þar sem minni hlutinn leggur til að málinu sé vísað frá. Þannig finnst mér ekki að hæstv. forseti og hæstv. iðnaðarráðherra geti fjallað um störf þingnefnda. Ég geri athugasemd við þau ummæli hæstv. forseta í fullri vinsemd og með djúpri virðingu fyrir störfum hans, að þingmeirihluti sé fyrir málinu og þess vegna sé ástæða til að fjalla um hversu lengi menn ræða um það. Ég vona að við höfum þá afstöðu til Alþingis og umræðu okkar hér að þær fari fram til að gera megi breytingar og lagfæringar og jafnvel vísa málum frá ef illa er til þeirra vandað, eins og sannarlega hefur verið um sum mál iðnaðarráðherra hér í vetur og við þekkjum öll af fenginni reynslu, því miður, vinnubrögð í því ráðuneyti.

Ég vona að það sé afstaða hæstv. forseta Alþingis (Forseti hringir.) að hér séu umræður til gagns.