Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin

Mánudaginn 13. mars 2006, kl. 16:21:10 (6066)


132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:21]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum í umræðu undir liðnum um fundarstjórn forseta sem auðvitað er um hvernig þingstörf skuli fara fram. Það gerðist á fundi með forseta í dag að það var ekki hægt að leggja fram vikuáætlun. Það var bara dagsáætlun. Er það auðvitað miður.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Við getum sagt að fram hafi komið ákveðinn sáttatónn frá stjórnarliðum. Þó svo það geti vel verið að eitt hafi verið eftir, þ.e. einhver þvergirðingsháttur hæstv. iðnaðarráðherra að geta ekki fallist á eða viðurkennt að enn eitt frumvarp frá henni verði tekið til baka. Það er kannski vandi þingsins. Það er kannski vandamálið sem við stöndum frammi fyrir að stjórnarliðar hafa séð að þetta frumvarp er meingallað. Stjórnarandstæðingar eru ekki sammála því að vatnið, þessi auðlind, verði tekin og sett á braskmarkað framtíðarinnar. Við vitum að iðnaðarráðherra hefur talað ógætilega um einkavæðingu Landsvirkjunar o.s.frv., það er þessi einkavæðingarárátta Framsóknarflokksins. Þetta skyldi þó ekki vera hluti af því sem að minnsta kosti tveir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað um, annar þeirra varaformaður iðnaðarnefndar, að kannski væri full ástæða til að taka þetta til baka og skoða þetta örlítið betur.

Virðulegi forseti. Ég hef stundum átt þess kost að sitja sem varaformaður þingflokks inni á fundum með forseta Alþingis þar sem vikuáætlun og störf þingsins eru rædd. Frumvarpið um jarðrænar auðlindir kemur aftur upp í huga minn en stjórnarandstæðingar héldu hér mikilli umræðu um það og bentu á hversu meingallað það frumvarp var. Ég ætla að gera það fyrir hæstv. iðnaðarráðherra að rifja ekki upp þau ummæli sem þar fóru fram þar hæstv. ráðherra baðst afsökunar á að hafa misskilið sitt eigið frumvarp. Nóg um það. Það var rétt, hún varð manneskja að meiri við það.

En er það kannski vandamálið okkar hér nú, virðulegi forseti, að það sé ekki hægt að gera þetta aftur? Er það vandamálið? Þess vegna skulu það vera mín lokaorð að ég tel að forseti Alþingis eigi að beita sér fyrir því að taka þetta mál út af dagskrá og láta skoða það betur en hér er verið að gera. Annars heldur þessi umræða svona áfram vegna þess að hér er himinn og haf á milli.

Virðulegi forseti. Það má eiginlega spyrja hvort ekki væri ástæða til að taka vatnið og kæla það. Gefa mönnum tóm til að fara í gegnum þetta. Það er svo margt sem hefur komið í frumvörpum frá hæstv. iðnaðarráðherra sem hefur þurft að skoða betur og ég held að hér sé enn eitt frumvarpið af því tagi. Forseti Alþingis verður að taka á því vegna þess að ekki gerir ráðherrann það, hún getur greinilega ekki gert þetta tvisvar.