Vatnalög

Mánudaginn 13. mars 2006, kl. 20:09:48 (6100)


132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:09]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er kannski svolítið seint í rassinn gripið að ætla að taka upp málflutning um þær spurningar sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir kom með hér áðan en mér finnst þær hins vegar vera þess eðlis að við hljótum að leita svara. Ef varamaður tekur sæti á Alþingi í fjarveru þingmanns þá ber þeim varamanni sem þá verður hv. þingmaður, að taka sæti í þeim nefndum sem viðkomandi hv. þingmaður hefur átt sæti í áður, sem hann er að leysa af. Þegar um er að ræða langan tíma og langvarandi veikindi eða eins og í þessu tilviki eftir slys, og þar sem búist er við langri fjarveru þá getur verið mjög hæpið að hægt sé að fá einn og sama varamanninn til að gegna allan tímann, ég held að við hljótum öll að horfast í augu við það. Ef það á að verða til þess að viðkomandi sem kemur hér inn sem varamaður nr. tvö er sviptur málfrelsi í máli eins og þessu þar sem er alveg ljóst að við eigum eftir að ræða allra næstu daga, þá getur það undir engum kringumstæðum komið til greina vegna þess að viðkomandi hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir kemur til með að þurfa að sinna nefndarstörfum sínum í iðnaðarnefnd ef hún verður til þess kölluð. Þar af leiðandi hlýtur það að vera þannig að þingið geti ekki komið í veg fyrir að hún fái að tjá sig um það mál. Það er alveg ljóst. Það er ekkert í þingsköpunum sem í raun og veru bannar eða festir málfrelsið við þann þingmann eða fimmta þingmann þessa eða hins kjördæmisins. Það er ekkert þannig. Það er ekkert í þingsköpum sem segir það. Við hljótum að líta þannig á að þeim hv. þingmanni sem hér er kominn inn til þess að vinna sé gert kleift að vinna sína vinnu og koma skoðunum sínum hér á framfæri. Annað væri fullkomlega óeðlilegt.

Ég held að það sé ástæða til þess fyrir hæstv. forseta að svara þessu á fundi í kvöld, ég leita eftir svörum og ef hæstv. forseti getur ekki svarað úr stól að fá þá lögfróða menn til að skoða þetta, vegna þess að varamaður þessi hefur ákveðnum skyldum að gegna á Alþingi en það lítur þannig út að hugsanlegt sé að hægt sé að koma í veg fyrir að hún geti rækt þær að fullu og það getum við auðvitað ekki tekið í mál. Ef svo er verðum við að taka það upp í umræðunni um þingsköpin, endurskoðun á þingsköpum sem nú stendur yfir.

En varðandi það að hér hefur ítrekað verið rætt að við vitum ekki hvað er fram undan þá er það alveg ljóst að fram undan er kvöldfundur og það eru margir á mælendaskrá og fram undan eru fundir um vatnalögin næstu vikur.