Vatnalög

Þriðjudaginn 14. mars 2006, kl. 23:26:38 (6154)


132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[23:26]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Nú háttar svo til að klukkuna vantar 4 mínútur í hálftólf og undanfarin dægur hafa verið nokkuð full af vinnu fyrir þingmenn. Þingmenn hafa þurft að vaka hér og halda miklar ræður og nú vaknar sú spurning hve lengi forseti ætli að halda þingstörfum áfram og þessu fundarhaldi fram í nóttina.

Mér skilst að það standi yfir í húsinu einhvers konar viðræðufundur en ekkert er af honum að frétta og ég verð að segja eins og er að mér finnst því ekki til mikils að halda þessum umræðum áfram. Einn hv. þingmaður, sem því miður er ekki staddur hér, telur sig hafa u.þ.b. 15 mínútna athyglisþol og ég hygg að það dofni, þó lengra sé hjá öðrum þingmönnum, þegar kvöldar, a.m.k. hjá okkur sem eldri erum í þingsalnum og erum ekki alltaf jafnhress þegar kvöldar og viljum helst fara að komast í háttinn og lúra og undirbúa okkur undir morgundaginn, undir þau tíðindi sem verða daginn eftir. En dagarnir eru ekki allt of margir í ævi þingmannsins, eins og forseti veit, og ekki í ævinni yfir höfuð. (Gripið fram í.) Það þarf að nýta þá hið besta og þess vegna er ekki ráð, nema fyrir hina allra yngstu meðal þingmanna, að halda mönnum hér við vinnu að óþörfu langt fram á kvöld.

Af þessu tilefni vildi ég spyrja forseta hvort hún hafi ráðagerðir um að halda fundinum lengi áfram og leggja henni þau ráð af minni hálfu að gera það ekki og slíta fundi nú um klukkan hálftólf. Ég hygg að það sé nokkuð góður tími og vel við hæfi á þessum degi og engin þörf á að halda mikið lengur áfram. Að minnsta kosti treysti ég mér ekki mjög til þess, forseti, en þarf þó að gera það skv. 53. gr. þingskapa sem bindur mig og aðra þingmenn til að vera viðstadda þegar þingfundir standa yfir. Ég vil að auki beina því til forseta að allir þingmenn eru seldir undir þá hina sömu sök og ef þingforseti ætlar að halda áfram fundarhaldi verði allir þingmenn boðaðir til þess fundar.