Vatnalög

Miðvikudaginn 15. mars 2006, kl. 21:06:46 (6233)


132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[21:06]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Nokkuð er liðið á þessarar umræður í dag. Á morgun fer væntanlega fram 3. umr. þar sem gefst tækifæri til að fara ítarlegar í gegnum þetta mál og þau einstöku atriði sem hafa komið fram hér. Ég mun því ekki vera með langt mál. Ég mun halda til haga grundvallaratriðum varðandi þessi lög sem hafa fengið nafnið vatnalög og lúta að endurskoðun á vatnalögum frá 1923.

Þingmenn hafa lesið út úr lögunum með misjöfnum hætti. Við heyrðum áðan í ræðu hv. þm. Jónínu Bjartmarz hvað hún hún las úr frumvarpinu. Þess vegna mun ég árétta örstutt það sem stendur í frumvarpi til vatnalaga, frú forseti. Í 1. gr. frumvarpsins stendur:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.

Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að raska ekki vatni, farvegi þess, lífríki þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.“

Þarna kemur inn matsatriði, sem er breyting frá því sem er í núgildandi lögum og einnig sú grundvallarbreyting að í þessu frumvarpi er sagt að kveða þurfi á um skýrt eignarhald. En í vatnalögunum er talað um, og ég kem að því á eftir, umráða- og hagnýtingarrétt. Þarna er grundvallarmunur á, hvort menn tala um eignarhald á auðlindinni vatni eða hagnýtingarrétt á vatni, sem nánar er þá skilgreindur.

Í 2. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Hér er um miklu víðtækari skilgreiningu á vatni en er í núgildandi vatnalögum þar sem einnig er tekið til loftkennt form vatns. Í ljósi þess að lögð er áhersla á skýrt eignarhald er því búin til séreignarskýring fyrir vatn í víðtækara formi en er í núgildandi vatnalögum.

Ef við lítum á 4. gr. frumvarpsins, þá stendur þar, með leyfi forseta:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Ef við lítum á lagagreinar sem lúta að þessu í núgildandi vatnalögum. Þá er hvergi minnst á eignarrétt heldur á umráða- og hagnýtingarrétt. Um þetta er deilt og var um það deilt þegar þessi lög voru sett, vatnalög, hvernig ætti að túlka þetta. Ágreiningurinn um þetta stendur enn. En í 2. gr. laganna stendur, með leyfi forseta:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Eins og margoft hefur verið rakið er þar að baki jákvæð skilgreining á þeim réttarheimildum sem landeigandi hefur til að nota vatn en ekki um heildareignarrétt í sjálfu sér að ræða.

Frú forseti. Í gegnum þetta hafa menn farið afar ítarlega. Ég mun einnig gera það ítarlegar í ræðu minni á morgun. En af því þetta var til umræðu hjá síðustu ræðumönnum þá þykir mér rétt að taka þetta fram, til að menn átti sig á að í þessu liggur ágreiningurinn. Þarna er hann. Það sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og reyndar í stjórnarandstöðunni allri, leggjum til og viljum er að vatnið sem auðlind eigi sig í raun sjálf en það sé nýtingarrétturinn sem við þurfum að ræða og skilgreina.

Mig langar að vitna örstutt í þessi atriði sem menn hafa komið inn á, um að þetta er ekki bara sérmál Íslendinga. Þetta er mál sem snertir afstöðuna til vatns í öllum heiminum, til þess hvort vatnið sem auðlind eigi að vera framseljanleg eign eða ekki.

Af því að hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á þetta, hvort væri hægt að selja vatn frá fasteign, þá ætti samkvæmt 8. gr., ef litið er á eignarréttarákvæðin, að vera hægt að selja vatnið sjálft sem auðlind frá fasteign. En núgildandi lög mundu aðeins kveða á um að skilgreininguna um vatnsréttindi væri hægt að láta af hendi til þriðja aðila eins og er algengt, t.d. hjá vatnsveitu sveitarfélags sem fær að taka vatn í landi hjá ákveðnum landeiganda og fær ákveðin réttindi til að nýta þá auðlind til sinnar vatnsveitu.

Í lokin, af því hér var talað um að mikilvægt væri að rétturinn til vatns og staða vatns yrði bundinn í stjórnarskrá með hliðstæðum hætti og auðlindin í sjónum, þá langar mig í lokin, hæstv. forseti, að vitna í leiðara Morgunblaðsins frá 1. nóvember árið 2005. Þar er fjallað eru um þessa þætti, um vatn. Það skulu vera lokaorð mín að þessu sinni. En þar stendur, þar sem búið er að fjalla ítarlega um stöðu vatnsins og mikilvægi þess, með leyfi forseta:

„Tvö ríki, Úrúgvæ og Holland,“ — ekki er nú Holland neitt þróunarríki — „eru nú í þann mund að banna einkavæðingu vatns með lögum. Í báðum tilfellum er ekki aðeins kveðið á um að ekki megi einkavæða vatnsveitur, heldur einnig að ekki megi fela einkaaðilum rekstur vatnsbóla.

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst 2005 til 2015 áratug alþjóðlegra aðgerða til að tryggja vatn til lífsviðurværis. Í ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 2004 er það markmið sett að fækka þeim um helming, sem ekki hafa aðgang að eða efni á öruggu drykkjarvatni.

Tilgangur einkavæðingar er fyrst og fremst að tryggja neytendum betri þjónustu og kjör með tilstuðlan samkeppni, ekki að færa einokun frá einni hendi yfir á aðra. En það hlýtur einnig að vera mikið álitamál hvort hægt sé að einkavæða auðlind á borð við vatn og má yfirfæra þá umræðu yfir á umræðuna um auðlindir hafsins og spyrja hvort ekki sé rétt að líta á vatn sem þjóðareign.“ — Ég vek athygli á því, frú forseti, að ég er að vitna í leiðara Morgunblaðsins frá 1. nóvember 2005. — „Nú stendur yfir nefndarstarf um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Rétt er að við þá endurskoðun verði áskorunin, sem kemur fram í yfirlýsingu félagasamtakanna fyrir helgi um vatn fyrir alla, tekin til alvarlegrar skoðunar. Þótt á Íslandi sé gnægð vatns verða Íslendingar að sýna að þeir kunni að umgangast þessa mikilvægu auðlind af virðingu og alúð.“

Ég get tekið undir þau orð í leiðara Morgunblaðsins og árétta og ítreka sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að koma eigi stjórnarskrárbundið ákvæði um þjóðareign á vatni og rétt á vatni fyrir alla, eins og hér er verið að tala um. Þetta hefur verið krafa varðandi vatnið og við stjórnarandstaðan á Alþingi og Vinstri hreyfingin – grænt framboð höfum fært rök fyrir því að ekki eigi að reka þessi svokölluðu vatnalög svo hart í gegn eins og ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur gert, heldur eigum við að skoða þessi mál miklu nánar og taka fyrst fyrir ákvæði um vatn í stjórnarskrána, í öðru lagi eigum við að taka fyrir vatnsverndarlög og í þriðja lagi væri þá hægt að taka fyrir endurskoðun á lögum um nýtingu og nýtingarrétt á vatni og annað sem því gæti tilheyrt.

Þess vegna fagna ég því að náðst hefur samkomulag um að gildistaka laganna, verði þau samþykkt á Alþingi eins og þau nú liggja fyrir, sem ég vona reyndar ekki, skuli hafa verið færð aftur til 1. nóvember árið 2007 samkvæmt yfirlýsingu hæstv. iðnaðarráðherra, þ.e. hálfu ári eftir kosningar, ef þær verða þá ekki fyrr. Fyrir þann tíma vinni nefnd, sem hæstv. iðnaðarráðherra lýsti yfir að yrði skipuð, að því að skoða öll þessi lög og réttarmál sem lúta að vatni, þar með talin vatnsverndarlög, svo ekki sé minnst á stjórnarskrárvinnuna. Ég teldi eðlilegt að inn í það nefndarstarf kæmi hver viðbrögð stjórnarskrárnefndar yrðu við því að taka ákvæði um vatn inn í væntanlega endurskoðun stjórnarskrár.

Allt þetta verði búið að vinna áður en gildistaka laganna gæti hugsanlega farið fram. Það væri þá hægt að leiðrétta og endurskoða lögin með tilliti til þess, ef það þætti nóg. En það er líka möguleiki að komin verði ný ríkisstjórn og þessi lög verði numin úr gildi, sem ég legg áherslu á að komi aldrei til framkvæmda eins og þau nú eru.