Vatnalög

Fimmtudaginn 16. mars 2006, kl. 11:07:17 (6256)


132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[11:07]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér eru greidd atkvæði um markmiðsgrein frumvarps til vatnalaga. Hæstv. forseti. Það er engin efnisleg breyting á þeirri markmiðsgrein og í núgildandi lögum. Fræðimenn 20. og 21. aldar hafa sagt álit sitt á því, dómafordæmi Hæstaréttar segir einnig sína sögu. Hér er ekki verið að breyta inntaki laganna. Hér er um formbreytingu og eðlilega breytingu að ræða. Dómafordæmi Hæstaréttar sanna það.

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gefið stjórnarliðum einkunn. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa líka gefið helstu sérfræðingum á sviði eignarréttar á 20. öldinni sem og dómum Hæstaréttar sína einkunn. Allt þetta sannar málefnafátækt Samfylkingarinnar og stjórnarandstöðunnar því að allir helstu sérfræðingar eignarréttar á 20. öldinni hafa sýnt með greinaskrifum sínum að hér er eingöngu um formbreytingu að ræða.