Vatnalög

Fimmtudaginn 16. mars 2006, kl. 11:11:02 (6259)


132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[11:11]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er alvarlegt mál á ferðinni. Ég tel að hér sé um eðlisbreytingu að ræða en ekki formbreytingu á eignarhaldi á vatni vegna þess að gildissviðið er mun víðtækara en í gildandi lögum, þ.e. hér er tekið til vatns í öllum mögulegum formum, ekki eingöngu til straumvatns eða yfirborðsvatns. Verið er að lögfesta með formlegum hætti einkaeignarrétt á vatni í öllum mögulegum formum. Eins og fram kemur í greinargerð með þessu frumvarpi virðist það vera markmið núverandi ríkisstjórnar að eignarhald yfir vatni verði tæmandi og í eðli sínu fullkominn réttur, samkvæmt fræðimönnum sem standa að þessu frumvarpi og þeim sem hafa talað og sömuleiðis greinargerðinni. Því hafna ég og ég er algerlega andsnúin því að menn fari þá leið að tryggja hér fullkominn eignarrétt á vatni í öllum mögulegum formum til framtíðar. Það tel ég ranga nálgun.

Virðulegi forseti. Vatn er ekki bíll eða hver annar hlutur heldur uppspretta lífs og þess vegna eigum við að nálgast alla lagasetningu á vatni með slíkum hætti en ekki þannig að hér sé eingöngu verið að einfalda stjórnsýslu.

Frú forseti. Ég segi því nei.