132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Munnleg skýrsla utanríkisráðherra um varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna.

[11:39]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Bandarísk stjórnvöld hafa, eins og kunnugt varð í gær, tilkynnt ríkisstjórn Íslands að dregið verði stórlega úr starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli síðar á þessu ári. Ákveðið hefur verið að orrustuþotur varnarliðsins og björgunarþyrlur þess verði fluttar á brott í síðasta lagi fyrir lok september.

Bandaríkjastjórn lýsti jafnframt yfir eindregnum vilja til að standa við varnarsamning ríkjanna frá 1951 og Norður-Atlantshafssáttmálann sem Atlantshafsbandalagið hvílir á. Hún leggur enn fremur til að viðræður milli landanna um framhald varnarsamstarfsins haldi sem fyrst áfram. Íslensk stjórnvöld leggja í því efni áherslu á að viðræðum verði hraðað því brýnt sé að niðurstaða náist um framtíðarskipan í varnarmálum þjóðarinnar.

Ákvörðun Bandaríkjastjórnar veldur íslenskum stjórnvöldum vonbrigðum. Þau hafa í viðræðum við Bandaríkjamenn lagt fram ítarlegar tillögur um að Íslendingar greiði kostnað vegna reksturs og viðhalds Keflavíkurflugvallar og taki yfir þyrlubjörgunarþjónustu við varnarliðið. Með þessu sýndu íslensk stjórnvöld í verki að þeim væri í mun að ná niðurstöðu um varnarmálin. Sú ákvörðun sem nú liggur fyrir hjá Bandaríkjastjórn felur ekki í sér þá niðurstöðu sem vonast var til. En þetta er ákvörðun Bandaríkjaforseta og það hefur legið fyrir að hann ætti síðasta orðið um orrustuþotur varnarliðsins.

Íslenskum stjórnvöldum var tilkynnt þessi ákvörðun í símtali sem Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, átti við mig laust fyrir hádegi í gær. Þá gekk sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi síðdegis á fund okkar forsætisráðherra og gerði okkur nánari grein fyrir ákvörðuninni. Fram kom að forseti Bandaríkjanna hefði fallist á tillögu Rumsfelds, landvarnaráðherra um að bundinn yrði endi á fasta viðveru orrustuþotna varnarliðsins í Keflavíkurstöðinni eins og það var orðað. Það felur jafnframt í sér að björgunarþyrlur þess hverfa á brott, enda eru þær hér vegna orrustuþotnanna.

Af hálfu Bandaríkjamanna er tekið fram að íslensk stjórnvöld hafi lagt fram mikilsverðar tillögur á samningafundum ríkjanna í síðasta mánuði um að þau mundu greiða kostnað vegna reksturs Keflavíkurflugvallar og vegna björgunarþjónustu við varnarliðið. Hins vegar valdi breyttar aðstæður í öryggismálum á Norður-Atlantshafi og mikið álag á Bandaríkjaher í öðrum heimshlutum, og þörf fyrir búnað hans og mannskap þar, því að ákveðið hafi verið að gera umræddar breytingar í Keflavíkurstöðinni.

Þessi ákvörðun Bandaríkjastjórnar nú á sér nokkurn aðdraganda eins og flestum er kunnugt, a.m.k. aftur til vors 2003 þegar hún tilkynnti íslenskum stjórnvöldum um þá ætlan að flytja orrustuþoturnar og þyrlurnar héðan. Frá því var horfið þá og síðan hefur verið unnið að því að reyna að finna ásættanlega lausn og semja um framtíðarfyrirkomulag varnanna.

Í júlí í fyrra hófust viðræður milli landanna um með hvaða hætti Íslendingar gætu tekið þátt í kostnaði sem tengdist veru varnarliðsins hér á landi. Markmið íslenskra stjórnvalda var eftir sem áður að reyna að tryggja að orrustuþotur yrðu áfram í landinu.

Stjórnvöld lýstu sig í upphafi viðræðnanna í fyrrasumar reiðubúin til að semja um að þau greiddu verulegan hluta þess kostnaðar sem hlýst af rekstri og viðhaldi Keflavíkurflugvallar. Einnig stæði vilji til þess að kanna í viðræðum við Bandaríkjamenn hvernig Ísland gæti tekið að sér aukið hlutverk á sviði þyrlubjörgunar hér á landi, sem fæli m.a. í sér þjónustu á þessu sviði við varnarliðið.

Tillögur um þetta voru lagðar fram af Íslands hálfu á samningafundi landanna í fyrri hluta september. Þær fólu meðal annars í sér að við tækjum að okkur á umsömdum tíma umsamið hlutfall af kostnaði sem lyti að atriðum eins og slökkviliði og snjómokstri sem og viðhaldi og endurnýjun á ýmsum búnaði, flugbrautum og akstursbrautum.

Viðræður sigldu í strand í október þegar Íslendingar höfnuðu tillögum sem Bandaríkjamenn lögðu fram áður en fundir hófust. Vandinn laut fyrst og fremst að því að þær gerðu ráð fyrir að Íslendingar greiddu rekstur og viðhald flugvallarins en einnig margvíslegan og mikinn kostnað sem laut beinlínis að herstöðinni sjálfri og varnarliðinu. Hér bar mikið á milli aðila.

Snemma í desember síðastliðnum átti ég fund með Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem var haldinn í tengslum við ráðherrafund Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Ljubljana í Slóveníu. Fundurinn með Burns var haldinn að ósk Bandaríkjamanna til að ræða stöðuna í varnarviðræðum landanna. Aðallega var rætt um hvernig koma mætti samningaviðræðum af stað. Í framhaldinu unnu báðir aðilar að því máli, m.a. þannig að til bréfaskipta kom í áliðnum janúarmánuði milli mín og Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Samningaviðræður milli landanna hófust aftur 2. febrúar í Washington. Þann dag átti ég fund með Rice, utanríkisráðherra, í bandaríska utanríkisráðuneytinu til að reyna að hreyfa málum frekar og kynna tillögur sem höfðu verið í undirbúningi hjá okkur. Í þeim fólst einkum að Ísland mundi strax í haust hefja að greiða allan kostnað vegna atriða eins og slökkviliðs og snjómoksturs á Keflavíkurflugvelli og búnaðar vegna flugumferðarstjórnar. Rétt er að skjóta því hér inn að ástæða þess að miðað er við haust, nánar tiltekið mánaðamótin september/október, er að þá hefst fjárlagaárið í Bandaríkjunum. Samkomulag er um það milli aðila að hafa þá viðmiðun.

Þá var einnig gert ráð fyrir í íslensku tillögunum, sem lagðar voru fram 2. febrúar, að Ísland mundi strax á komandi hausti byrja að greiða helming kostnaðar vegna viðhalds og endurnýjunar á flugbrautum, akstursbrautum og flughlöðum og allan kostnað vegna þessara þátta frá og með hausti 2008.

Loks fólst í tillögunum að Ísland mundi frá hausti 2008 greiða allan kostnað vegna þyrlubjörgunar í landinu, m.a. til að þjóna flugvélum varnarliðsins að þessu leyti. Gert var ráð fyrir þeim möguleika að þyrlur yrðu keyptar gegnum sölukerfi það á vegum Bandaríkjahers sem stendur bandamönnum til boða að nýta sér og gæti reynst hagkvæmt. Miðað var við að ef til þessa kæmi yrðu keyptar nýjar þyrlur í gegnum þetta kerfi sem og allir varahlutir og þjálfun áhafna.

Í lok samningafundanna hinn 3. febrúar var fallist á það af Íslands hálfu að greiða samkvæmt nánara samkomulagi einnig kostnað við ýmsan mannskap og byggingar í herstöðinni sem halda mætti fram að tengdust rekstri og viðhaldi Keflavíkurflugvallar. Heildarkostnaður vegna þessa alls og áðurnefndra tillagna Íslands gæti numið að talið er 1,5–2 milljörðum króna á ári. Það yrði til viðbótar nokkur hundruð milljónum sem við greiðum nú þegar árlega vegna starfsemi Keflavíkurflugvallar. Nákvæmar tölur um þennan kostnað allan eru til ekki tilbúnar enn sem komið er.

Nú liggur fyrir, eins og áður sagði, að bandarísk stjórnvöld hafa tilkynnt ríkisstjórn Íslands að dregið verði stórlega úr starfsemi Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli síðar á þessu ári með því að orrustuþotur varnarliðsins og björgunarþyrlur þess verða fluttar brott í síðasta lagi fyrir lok september. Þetta felur í sér að mannskapur á vegum varnarliðsins verður væntanlega mjög lítill. Jafnframt felur þetta í sér að varnarliðið annast ekki lengur Keflavíkurflugvöll þannig að í haust gerist flest af því sem við höfðum gert ráð fyrir í tillögum okkar í viðræðunum við Bandaríkjamenn, þ.e. að við tökum yfir rekstur og viðhald Keflavíkurflugvallar og þá auðvitað það mannahald sem því tengist. Þeir sem vinna að þessum verkum á vegum varnarliðsins verða starfsmenn opinberra íslenskra aðila.

Þegar tilkynnt var í gær um ákvörðun Bandaríkjastjórnar var sérstaklega tekið fram að verið væri að binda enda á fasta viðveru orrustuflugvéla í Keflavíkurstöðinni. Jafnframt var lagt til að fulltrúar landanna hittust sem fyrst til að ræða með hvað ráðstöfunum og viðbúnaði öðrum en fastri viðveru hér mætti best tryggja við breyttar aðstæður í öryggismálum að Bandaríkin gætu staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt varnarsamningnum. Þetta var nánar útskýrt með því að ræða ætti í áþreifanlegum atriðum hvernig gera mætti skuldbindingar Bandaríkjanna sýnilegar, eins og það er orðað, án fastrar viðveru orrustuþotna hér á landi.

Nú er sem sagt fram undan að komast að því með viðræðum við Bandaríkjamenn hvaða ráðstafanir og viðbúnaður hér og annars staðar kemur til greina í þessu efni til að tryggja áframhald varnarsamstarfsins. Hér er ekki unnt að fjalla um hvernig þessu kynni að verða háttað, enda órætt mál. Það á eftir koma í ljós í viðræðum landanna hvort þetta er gerlegt. Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð rík áhersla á að þessum viðræðum verði hraðað því að brýnt sé að niðurstaða náist um framtíðarskipan varna landsins. Af okkar hálfu hefur verið lagt til að rætt verði einnig og sérstaklega um hvernig koma megi á enn nánara samstarfi en þegar fer fram milli landanna varðandi varnir gegn hryðjuverkum og skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi.

Loks hefur Bandaríkjamönnum verið bent á að í ljósi þess að björgunarþyrlur varnarliðsins hverfi héðan í haust þurfi að nást fljótt niðurstaða í það hvort farin verði sú leið að kaupa nýjar þyrlur ásamt þjálfun og varahlutum gegnum sölukerfi Bandaríkjahers eða hvort leitað verður annað. Hér liggur á, því tryggja verður að nægur þyrlukostur sé í landinu þegar björgunarþyrlur varnarliðsins verða fluttar á brott í haust.

Virðulegi forseti. Ýmsir hafa lýst vonbrigðum með þá niðurstöðu sem nú er fengin með einhliða tilkynningu Bandaríkjastjórnar. Ég tel að það hefði verið heppilegra og eðlilegra að niðurstaða af þessu tagi hefði fengist í samningum viðræðunefnda þjóðanna og að málið hefði þá verið til lykta leitt í heild sinni í stað þess að viðvera orrustuþotnanna væri tekin út úr. Hins vegar hefur það legið fyrir um árabil að í Bandaríkjastjórn stæði vilji til að flytja orrustuvélarnar þangað sem meiri þörf væri fyrir þær en bjóða í staðinn upp á varnarviðbúnað af öðru tagi sem betur hentaði breyttum aðstæðum og nýjum tímum. Verkefnið fram undan er þess vegna að freista þess að ná samningum um slík atriði og það sem fyrst. Ella verður gildi varnarsamningsins frá 1951 lítið sem ekkert.