Vatnalög

Fimmtudaginn 16. mars 2006, kl. 13:55:19 (6280)


132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:55]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast um að fasteignaverð á Íslandi muni lækka, það mun líklegar frekar hækka við þessa samþykkt. Hv. þingmaður kinkar kolli, hvers vegna skyldi hann gera það? Líklega vegna þess að í hjarta hans er það bara þannig að hann gerir sér grein fyrir að menn líta á þetta sem einkavæðingu og ný viðbótarréttindi fyrir landeigendur.

Við höfum lagt áherslu á að þeim réttindum verði áfram fyrir komið með þeim hætti sem verið hefur í gegnum tíðina og reynst farsælt. Hv. þingmaður virðist greinilega á þeirri skoðun þó hann vilji ekki viðurkenna það hér í ræðustólnum og þó ólíklegur væri hann til þess að fara að draga yfir sig sauðargæruna, þá virtist hann samt sem áður kinka kolli þegar ég sagði áðan að þetta mundi líklega hækka jarðaverð á Íslandi.