Vatnalög

Fimmtudaginn 16. mars 2006, kl. 14:44:07 (6292)


132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:44]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að hv. þingmaður sé enn og aftur að snúa út úr orðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Það hefur hvergi komið fram í þessari umræðu að nokkur ætli að fara að þjóðnýta vatnið. Það hefur hvergi komið fram í þessari umræðu nema hjá hv. stjórnarliðum sem reynt hafa að slá ryki í augu fólks með slíkum málflutningi. Það hefur ekki komið fram hjá nokkrum ræðumanni neitt um þjóðnýtingu nema hugsanlega hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, sem hefur ekki aðra vörn í málinu en að standa hér og æpa að stjórnarandstaðan vilji þjóðnýta vatnið. Það er ekki hægt að sitja undir svona, frú forseti, þegar við erum að ræða þessi mál efnislega, slíkum upphrópunum. Þetta er rangt. Það er beinlínis rangt að menn hafi haldið því fram og ætli inn á þær brautir.

Hins vegar hefur það verið rætt að í þessu frumvarpi er hlutur almannaréttar mjög rýr ef nokkur. Menn hafa talað um að gæta verði að almannaréttinum í þessu frumvarpi og það kom ítrekað fram í umsögnum sem bárust iðnaðarnefnd.

Til fróðleiks fyrir hv. þm. Pétur Blöndal, af því að ég veit að hann hefur gaman af ýmsum upplýsingum, þá er það þannig í ríkjunum í kringum okkur og í Evrópu að vatn er algerlega utan séreignaréttar. Þar er gengið út frá almannaréttinum í lagasetningu. Við erum að fara inn á allt aðrar brautir, verði þetta frumvarp að lögum, en nokkur önnur ríki hafa farið í heiminum. Það finnst mér áhyggjuefni þegar við erum að hefja göngu okkar inn í 21. öldina.