Vatnalög

Fimmtudaginn 16. mars 2006, kl. 15:35:57 (6298)


132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:35]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einfalt að greina frá því en ég hygg að það hafi bæði komið þeim er hér stendur og iðnaðarráðherra, sem og kannski ríkisstjórn og stjórnarflokkunum, á óvart — ég verð að játa það — þetta atriði hvað varðar bæði 14. og 22. gr. frumvarpsins. Hvorki ég né ráðuneyti mitt áttaði sig á að þau ákvæði væru með þessum hætti því að allar leyfisveitingar samkvæmt þeim greinum heyra undir landbúnaðarráðherra í dag og munu áfram heyra undir hann þar til þessi nýju lög taka gildi.

Þegar ég áttaði mig á þessu í gær skoðaði ég hvort hægt væri að breyta þessu í meðförum þingsins strax svo það lægi fyrir eins og það er í dag og markað með reglugerð um Stjórnarráðs Íslands. En stjórn og stjórnarandstaða höfðu gert víðtækt samkomulag um afgreiðslu þessa máls og stjórnarflokkarnir töldu að með því að flytja breytingartillögu ofan í það yrði því samkomulagi raskað. Þó hef ég heyrt á göngum þingsins að stjórnarandstæðingar væru tilbúnir að ljá þessu máli lið og kippa því í liðinn strax.

En málið er auðvitað ekki farið frá mér. Ég er þeirrar skoðunar að þetta eigi að heyra undir landbúnaðarráðherra. Þetta snýr, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, að vörnum gegn landbroti og landgræðslu, og eins að breytingu á farvegi út af lax- og silungsveiðilöggjöf. Ég lít því svo á að eitt af verkefnum nefndarinnar sem skipuð verður verði að endurskoða þetta og færa það aftur, eða að lögunum verði ekki breytt og standi eins og þau eru. Menn vildu ekki raska samkomulaginu í gær og hreyfa við því með (Forseti hringir.) breytingartillögum því að samkomulag er samkomulag. Það ber allt að virða.