Vatnalög

Fimmtudaginn 16. mars 2006, kl. 16:09:15 (6302)


132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:09]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Lok þessa máls eru að mörgu leyti athyglisverð. Nú erum við komin að lokaafgreiðslu málsins við 3. umr. Leiðangurinn sem menn eru í er að gera allt vatn á Íslandi að séreign í stað þess að hafa afmörkuð réttindi eins og verið hefur í vatnalögum fram að þessu.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa fallist á að þessi lög taki ekki gildi fyrr en eftir næstu kosningar og einnig að sett verði nefnd til að fara yfir málið. Það er ástæða til að þakka stjórnarandstöðunni fyrir að hafa komið í veg fyrir eitthvað af þeim slysum sem í stefnir. Hæstv. landbúnaðarráðherra kom í ræðustól rétt áðan og sagði okkur frá því að í 14. gr. þessa frumvarps og 22. gr. væru stórhættuleg ákvæði sem þyrfti að breyta, verið væri að færa vald frá landbúnaðarráðuneytinu til iðnaðarráðuneytisins. Þetta sagði hæstv. landbúnaðarráðherra og gat þess að þetta yrði verkefni fyrir nefndina sem stjórnarandstaðan hafði í gegn að sett yrði á laggirnar. Þetta segir sitt um málið.

Við sátum lengi yfir málinu í iðnaðarnefnd. Við vissum af þessum breytingum, þessum gríðarlegu flutningum á valdi til hæstv. iðnaðarráðherra. Orkustofnun er alltumlykjandi í þessu lagafrumvarpi en hæstv. landbúnaðarráðherra virðist vakna upp við vondan draum við lokaafgreiðslu málsins. Þetta segir dálítið um það hvað er hér á ferðinni.

Á ferðinni er eðlisbreyting sem menn hafa ekki skoðað til enda hvernig muni virka. Nú hvet ég alla framsóknarmenn, sem hafa haft það í langan tíma á stefnuskrá sinni að vera einhvers konar félagshyggjuflokkur á miðjunni, að taka nú völdin af frjálshyggjuleiðtogum sínum þremur, (Gripið fram í: Taka til fótanna.) taka til fótanna, flytja sig og ræða t.d. við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson um það hvaða leiðir séu í stöðunni og velta fyrir sér framtíðinni.

Í alvöru talað (Gripið fram í.) þá óska ég eindregið eftir því að menn velti fyrir sér hvort ekki eigi að leita samstöðu um meðferð auðlinda á Íslandi og ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar með glæsibrag þar sem menn hafa gengið saman að því verkefni. Það er eitthvert stærsta verkefni í íslenskri pólitík á síðustu árum, að ljúka þeirri endurskoðun og sjá til að eðlilega sé farið með auðlindir þjóðarinnar.