Vatnalög

Fimmtudaginn 16. mars 2006, kl. 16:16:45 (6305)


132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:16]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú er komið að næstsíðasta blóðdropanum. Hún er náttúrlega hálffarsakennd, sú fullyrðing síðasta ræðumanns, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, að nú væri verið að fara að samþykkja frumvarp um ný lög sem mundu leysa af hólmi gömlu vatnalögin frá 1923. Þetta er ekki rétt. Þessi lög eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. nóvember árið 2007 og ég er alveg sannfærður um að það verður búið að breyta þeim áður en sá dagur rennur upp. Við sáum það bara síðast áðan að hæstv. landbúnaðarráðherra lét sig falla á sverðið, ef svo má segja, og tók á sig sökina fyrir hæstv. iðnaðarráðherra, benti á augljósar mjög alvarlegar gloppur í þessu frumvarpi sem nú á að fara að samþykkja.

Þær eru fleiri, gloppurnar í frumvarpinu. Þess vegna er ég sannfærður um það, eins og ég segi, að þessum lögum verður breytt. Ég minni líka á að hér verða kosningar næsta vor og eftir þær kosningar mun mjög sennilega, og alveg örugglega vil ég segja, taka við ný ríkisstjórn. Sú ríkisstjórn mun breyta þessum lögum.

Það sem hefur gerst undanfarið er að hér hefur verið háð mjög snörp orrusta um grundvallarspurningar varðandi auðlindanýtingu í landinu. Ég sjálfur verð að segja það að ég fagna þeirri niðurstöðu sem hér hefur náðst. Hún er nokkurn veginn í samræmi við það sem ég lagði til hvað eftir annað í þessum átökum. Ég vildi reyndar að þessu frumvarpi yrði vísað frá, að nefnd yrði skipuð og að við fengjum síðan nýtt frumvarp næsta haust. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið að á margan hátt þurfi að endurskoða gömlu lögin frá 1923 þó að þau hafi líka að mörgu leyti gagnast okkur vel. Það verður sem sagt skipuð nefnd og hún mun taka þetta allt saman til endurskoðunar og ég er, eins og ég segi, sannfærður um að þessum lögum mun verða breytt. Ég er líka sannfærður um að þeim verður breytt til betri vegar. En nú hefur þessi niðurstaða náðst, þetta frumvarp verður núna samþykkt, að sjálfsögðu án þess að stjórnarandstaðan greiði því atkvæði sitt. Hún er einörð og samstæð á móti (Gripið fram í.) en það sem mun nú gerast er að við leggjum þetta mál í dóm þjóðarinnar. Það er þjóðin sjálf sem mun kveða upp sinn úrskurð í þessu máli og öðrum málum varðandi nýtingu á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Það mun gerast næsta vor og að sjálfsögðu verður þetta eitt af stóru kosningamálunum þá, vissulega vatnið en líka aðrar auðlindir þjóðarinnar.