Ákvörðun Bandaríkjamanna í varnarmálum

Mánudaginn 20. mars 2006, kl. 15:06:55 (6333)


132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Ákvörðun Bandaríkjamanna í varnarmálum.

[15:06]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég trúi auðvitað því sem hæstv. forsætisráðherra segir en hinu er ekki að leyna að mér finnst vera komin upp ákaflega einkennileg staða. Í þættinum Sjálfstætt fólk hjá Jóni Ársæli í gær var hæstv. utanríkisráðherra spurður að því hvort ekki hefði verið óþægilegt fyrir hann að fá þessar fregnir um ákvörðun Bandaríkjastjórnar rétt í þann mund sem hann var að koma frá Noregi. Hæstv. utanríkisráðherra svaraði á þá lund að það hefðu vissulega verið óskemmtilegar fréttir en þær hefðu þó ekki komið honum alveg á óvart því að hann hafi vitað að hann ætti von á þessu símtali á miðvikudaginn.

Nú liggur það sem sagt fyrir að hæstv. utanríkisráðherra vissi að þetta lá fyrir, hann vissi af ákvörðuninni en hann sagði hæstv. forsætisráðherra ekki frá henni. Ég verð að segja að mér finnast þetta ekki eðlileg vinnubrögð og ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Finnst honum þetta ekki vera skrýtið?